Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:21:10 (2207)

1998-12-12 16:21:10# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessar vangaveltur hv. þm. væru auðvitað aldeilis ágætar í almennri umræðu í upphafi kjörtímabils, þegar menn væru að velta því fyrir sér hvað þeir ætluðu að gera til að bregðast við þeirri öfugþróun sem við erum öll sammála um að hefur orðið, ekkert endilega eingöngu á þessu kjörtímabili heldur bara á umliðnum árum.

En nú erum við hér á síðasta ári þessa kjörtímabils og hv. þm. og flokkur hans hefur verið í ríkisstjórn í heil átta ár samfleytt og núna í fjögur ár með Framsfl. sem hefur sérstaklega talið sig byggðavænan, en veruleikinn er þessi og auðvitað hefur það ekkert farið fram hjá okkur jafnaðarmönnum hvernig hann er. Við höfum bara því miður ekki verið að stjórna þessu landi.

Það sem ég vakti athygli á og ég tel það ekkert markmið út af fyrir sig og alls ekki, að fjölga opinberum starfsmönnum, en fjölgunin hefur orðið 2.500 á yfirstandandi kjörtímabili og langmest hér. Af því að hv. þm. er frá Vesturlandi þá er t.d. fróðlegt að skoða tölur sem skipt er niður á kjördæmin árin 1995 og 1996. Þá verður fækkun í starfsemi hins opinbera um 26 í hans eigin kjördæmi á sama tíma og fjölgunin í starfsemi hins opinbera er 500 í Reykjavík. Á sama tíma eru menn að halda hér ræður um að flytja stofnanir, opinberar stofnanir út á land og raunverulega hefur opinber stofnun verið flutt í kjördæmi hans, upp á Akranes eins og frægt er orðið, en engu að síður er fækkun í hinum opinbera geira sem er þó beinlínis á valdi stjórnvalda, skulum við ætla, þó að menn eigi erfiðara með að stýra annarri þróun á vinnumarkaði. En þetta er þó bókstaflega í hendi hv. þingmanna sem hér hafa farið með völdin. Það er nú bara svona.