Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:31:57 (2214)

1998-12-12 16:31:57# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn. telur okkur ekki hafa staðið okkur vel í að fjölga störfum, þ.e. ekki staðið við orð okkar. Ég er tiltölulega ánægður með árangurinn, um 3.000 störf á ári og haldið í horfinu gagnvart fækkun af tæknilegum ástæðum. Það er góður árangur.

Mér finnst hins vegar skrýtið að hann skuli finna að því að störfum í opinberri og félagslegri þjónsutu hafi fjölgað hér á höfuðborgarsvæðinu. Varla er hann að fara fram á að þeim störfum verði fækkað? Ég hef ekki orðið var við annað en þrýstingur sé á að auka opinbera þjónustu á þessu svæði og í þau störf vantar fólk.

Hvað Austurland varðar, þá hefði ég gaman af því að heyra hina nýju samfylkingu skýra stefnu sína á Austurlandi. Hún vill leggja veiðileyfagjald á sjávarútveginn, flytja þannig enn meiri peninga til Reykjavíkur og slá af öll virkjunaráform á Austurlandi. Ég tel að sú pólitík muni ekki ganga sérstaklega vel í Austfirðinga. Ég ber engan kvíðboga fyrir að ræða loforð og efndir Framsfl. í kosningum á Austurlandi næsta vor, úr því að hv. þm. kom inn á það.