Fjárlög 1999

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 16:38:33 (2218)

1998-12-12 16:38:33# 123. lþ. 39.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú er komið að 2. umr. um síðasta frv. til fjárlaga á þessu kjörtímabili. Meiri hluti fjárln. lætur engan bilbug á sér finna í því verkefni að skila hallalausum fjárlögum. Oft hefur þótt erfitt að standa á móti kröfum um ný verkefni og endalausri fjárvöntun á vegum hins opinbera. Þó er staðfastur vilji meiri hluta nefndarinnar sá að skila hallalausum fjárlögum.

Þrátt fyrir staðfestu meiri hluta fjárln. er ekki hægt að líta hjá því að mikil vá er fyrir dyrum miðað við byggðaþróun í landinu. Fyrir Alþingi liggur tillaga forsrh. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001. Í fyrri umræðu um þá tillögu, sem fram fór hér á Alþingi fyrir stuttu, kom fram, í máli allra hv. þm. er til máls tóku um tillöguna, að almennt fögnuðu þeir tillögugerðinni.

Tillagan er vel og faglega unnin af hendi stjórnar Byggðastofnunar. Því má vel gera ráð fyrir að hún verði samþykkt hér á Alþingi í vetur eftir að hún hefur verið unnin í allshn. Til þess að markmið tillögunnar náist þarf að gera ráð fyrir fé á fjárlögum í ýmis verkefni er henni tengjast. Ljóst er að á milli 2. og 3. umr. um fjárlög þarf að móta viðbótartillögur umfram það sem hér liggur fyrir. Í því sambandi þarf helst að athuga eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að komið verði á eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni og til þeirra verði varið 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs. Þá eru hugmyndir um breyttar áherslur í ráðstöfun beingreiðslna í sveitum sem byggja nær eingöngu á sauðfjárrækt. Það þarf að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og lækka kostnað því samfara. Einnig er getið um að stuðla verði að bættum almenningssamgöngum. Þessi verkefni gætu öll kallað á nokkurt fé ef að líkum lætur.

Í öðru lagi er lögð áhersla á menntun, þekkingu og menningu. Í því sambandi er sérstaklega talað um fjarkennslu og menntun á háskólastigi.

Í þeim tillögum meiri hluta fjárln. sem hér liggja fyrir er nokkuð tekið á ýmsu því sem áhersla er lögð á í tillögu forsrh. Til dæmis er gert ráð fyrir sameiginlegu fjárframlagi til Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskólans. Þeir skólar hafa gert samstarfssamning sín á milli um fjarkennslu og í samræmi við hann reikna þeir með að vinna saman að uppbyggingu á slíku námi og auka með því aðgengi fólks að háskólamenntun. Til verkefnisins er gert ráð fyrir 12 millj. kr. sameiginlega til þessara skóla. Einnig lögð til 20 millj. kr. aukning til Kennaraháskólans til að koma til móts við fjölgun fjarnámsnemenda. Sem stendur stundar þriðjungur nemenda skólann með fjarnámi.

Mikið átak mun gert í að styðja þann mikla áhuga sem vaknað hefur upp úti um land til að byggja miðstöðvar til fjarkennslu á framhalds- og háskólastigi, til símenntunarmiðstöðva og þróunarsetra.

Mikilvægt er að virkja þann mikla áhuga sem vaknað hefur heima í héruðum til að bregðast við í menntamálum. Frumkvöðlarnir voru á Austurlandi og var fé varið til þeirrar starfsemi á yfirstandandi fjárlögum. Það hefur borið þann ávöxt að nú hefur verið stofnað Fræðslunet Austurlands sem starfar af miklum krafti. Með frumkvöðlastarfi hefur verið sýnt fram á að hægt er að lyfta grettistaki í menntunarmálum fyrir tiltölulega lítið fé. Þetta er því ánægjuleg þróun sem ástæða er til að vekja athygli á.

Við 3. umr. þarf að huga að jöfnun námskostnaðar en nemendur sem þurfa að fara úr heimabyggð til náms kosta til þess miklu fé. Sá kostnaður er einn þyngsti bagginn á heimilum á landsbyggðinni.

Einnig er lagt til að hugað verði að þeirri mannvirkjaþörf sem óneitanlega er fyrir hendi í þeim framhaldsskólum sem nú þegar eru starfandi. Ég vil sérstaklega nefna Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu og Menntaskólann á Egilsstöðum. Þar er fé lagt til undirbúnings bygginga í þeim skólum. Mikil þörf er fyrir bæði kennsluhúsnæði og heimavistir og því nauðsynlegt að hefja undirbúning og gera samninga við heimamenn að undirbúningi loknum.

Í tillögu meiri hluta fjárln. er víða komið til móts við aukna menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Þar er lagt fé til lista- og menningarmiðstöðvar á Austurlandi. Í safnliðum er víða lagt fé til einstakra listviðburða og menningarstarfsemi sem víða er í höndum heimamanna með þátttöku úrvalslistamanna. Í gær var m.a. til umræðu átakið Menning um landið. Ég hygg að fram hafi komið leiðrétting á þeim misskilningi um það verkefni.

Framlög til byggða- og minjasafna eru hækkuð. Byggða- og minjasöfn eru ekki eingöngu mikilvægur þáttur í menningarmálum og verndun menningararfs þjóðarinnar, heldur eru þau einnig mikilsverður þáttur í ferðaþjónustu.

Í því samhengi er einnig lagt til 20 millj. kr. fjárveiting til Dalabyggðar, til verkefna sem tengjast Eiríksstaðanefnd. Hún vinnur verkefni á fæðingarstað Leifs heppna. Það verkefni hefur menningarlegt gildi en jafnframt samhengi við ferðaþjónustu. Einnig vil ég minnast á verkefnið Tónlist fyrir alla. Framlög til þess eru hækkuð með tilliti til þess að hið ágæta fólk sem að því stendur ætlar að teygja átakið lengra frá höfuðborginni en nú er gert. Sem stendur er þetta í nokkuð góðum radíus út frá höfuðborginni en hefur ekki náð til fjærstu byggða.

[16:45]

Í byggðatillögu forsrh. er gert ráð fyrir sérstöku átaki til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni. Í samræmi við þessar áherslur er gerð tillaga um nokkra hækkun til húsafriðunarsjóðs. Þar má betur ef duga skal því verkefni er mikið og ástæða til að huga mjög vel að því.

Gert er ráð fyrir að landsmót Ungmennafélags Íslands verði haldið á Egilsstöðum árið 2001. Til þess að svo viðamikið mót verði haldið þarf að byggja upp íþróttaaðstöðu sem stenst nútímakröfur til íþróttamannvirkja. Aðstaðan sem þar verður byggð upp er hluti af framtíðaruppbyggingu íþróttamiðstöðvar á Austurlandi. Það er mjög mikilvægur þáttur þegar litið er til byggðamála.

Þetta var um mennta- og menningarmál en í þriðja hluta byggðatillögu forsrh. er byggt á jöfnun lífskjara og bættri samkeppnisstöðu. Þar eru veigamestu þættirnir jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í samgöngumálum. Ljóst er að húshitunarkostnaður hvílir þungt á þeim sem búa á köldum svæðum. Nauðsynlegt er að bregðast við í þessum efnum nú við afgreiðslu fjárlaga.

Í byggðatillögunni stendur, með leyfi forseta:

,,Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs.`` Það er sem sagt gert ráð fyrir að brugðist verði við þessari miklu þörf á næstu þremur árum. Ég reikna með því að við í fjárln. munum, fram að 3. umr., bregðast við nákvæmlega þessu.

Í fjórða hluta byggðatillögu forsrh. er gert ráð fyrir átaki í bættri umgengni við landið. Við þeim áherslum er víða brugðist í tillögum meiri hluta fjárln. Ég ætla ekki að rekja allt þar en vil benda á þá hina merkilegu þróun á svæði Héraðsskógaverkefnisins. Þar hefur mannfjöldaþróun orðið sú, í þeim hreppum þar sem skógræktarverkefni eru í gangi, að íbúafjöldi hefur staðið í stað eða aukist en utan þeirra svæða hefur orðið fækkun í sveitum. Héraðsskógaverkefnið er ódýrt og áhrifamikið tæki til að bregðast við í byggðamálum en jafnframt umhverfismál. Það hefur því mikil áhrif að útvíkka verkefnið eins og bændur og sveitarstjórn á Norður-Héraði hafa mikinn áhuga á. Ég tel afar nauðsynlegt að huga nánar að þessu verkefni.

Hæstv. forseti. Ég hef rætt um tillögu meiri hluta fjárln. í samhengi við byggðatillögu forsrh. Hlutverk nefndarmanna í fjárln. er að skila hallalausum fjárlögum en jafnframt að bregðast við áherslum sem nú eru í byggðamálum. Hæstv. forseti. Þetta er verkefnið fram undan.