Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:22:26 (2222)

1998-12-12 17:22:26# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var tekið skyndilega út af dagskrá í gær hafði ég fengið fáeinar fyrirspurnir sem mér er ljúft að svara núna.

Spurt var um störf biðlistanefndarinnar sem ég setti til þess að kanna og gera tillögur um hvernig hægt væri að vinna úr biðlistunum í Reykjavík og Reykjanesi. Ég get ekki staðfest þá tölu sem kom fram hjá hv. 13. þm. Reykv. en þessi nefnd er að ljúka störfum. Ljóst er að til þess að beita öllum þeim úrræðum sem óskir eru um þarf yfir 700 milljónir, aðeins í rekstur. Síðan þarf að taka við aukningu sem verður væntanlega, með fleiri fötluðum einstaklingum. Til þess að koma þessum málum algerlega í lag þurfum við því í málaflokkinn í kringum 4 milljarða í staðinn fyrir 3 milljarða rúma, eins og eru í fjárlögum þessa árs.

Það er deginum ljósara að þetta gerist ekki í einu vetfangi. En biðlistanefndin leggur til að við reynum að vinna okkur út úr þessum vanda á fimm til sjö árum. Ég tel það vera skynsamleg vinnubrögð. Þessi skýrsla er til meðferðar og við 3. umr. fjárlaga verður væntanlega komin á það skýrari mynd hvernig við fetum okkur inn á þessa braut.

Rétt er að taka fram að margt er í gangi í málefnum fatlaðra. Við erum að auglýsa eftir húsi undir sambýli, helst í Mosfellsbæ, en höfum fjármuni til þess að setja upp nýtt sambýli í Reykjaneskjördæmi á svæði svæðisskrifstofunnar á Reykjanesi. Verið er að byggja mjög vandað og reyndar dýrt sambýli fyrir einhverfa uppi í Dimmuhvarfi. Sú framkvæmd hefur tekið lengri tíma en við vonuðumst eftir. Það er ekki okkur í félmrn. eða framkvæmdasjóði að kenna heldur er það vegna þess að grenndarkynningu var eitthvað áfátt hjá Kópavogsbæ. Mig minnir að vandinn hafi verið sá að eitt hús var byggt á tveimur lóðum.

Varðandi undirbúning að lagasetningunni sem til þarf að koma áður en að málaflokkurinn er fluttur liggur fyrir frumvarp nær fullbúið frá svokallaðri laganefnd sem fékk það hlutverk að endurskoða lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga og fella inn þau lögin um málefni fatlaðra þannig að ein félagsþjónustulög gildi bæði fyrir fatlaða og ófatlaða í sveitarfélögunum. Ég vænti þess að geta komið með þetta frv. strax eftir jólin. Ég veit ekki hvort okkur gefst tími til að afgreiða það fyrir þinglok en þarna er um veigamikla löggjöf að ræða. Þetta frumvarp er sem sagt í burðarliðnum.

Sérlög um Greiningarstöðina er minna mál en það frumvarp er eitthvað komið í vinnslu.

Varðandi frumvarp um tekjustofna sveitarfélaga, sem þarf líka að liggja fyrir áður en af yfirfærslunni verður, þá hefur ekki verið unnið að því enn þá. Við verðum að byrja á að komast að því hvert umfang verkefnisins er og síðan liggur náttúrlega fyrir að þegar sveitarfélögin taka við þessu verkefni verða þau að fá peninga til þess að reka það. Því þarf að koma einhverju sanngjörnu mati á heimanmundinn sem sveitarfélögin fá með málaflokknum. Ég reikna með því að við notum svipuð vinnubrögð eins og þegar grunnskólinn var fluttur, en þeir útreikningar stóðust merkilega vel. Ríkið hefur látið með grunnskólanum það sem grunnskólinn kostaði til þess að reka hann áfram til þess að svara út sömu eða svipaðri launahækkun og aðrar stéttir í þjóðfélaginu fengu. Nú fengu kennararnir meira í samningum sínum við sveitarfélögin en aðrar stéttir sem hafðar voru til samanburðar og það kemur náttúrlega niður á fjárhag sveitarfélaganna og það er ekki ríkisins að borga það. Eins hafa sum sveitarfélög viljað gera mun betur við kennarana en áður var og það gera þau auðvitað fyrir eigin reikning.

Fjármagnið var flutt með því að hækka hlut útsvarsins í staðgreiðslunni og það hefur dugað. 20% af heildarfjárhæðinni var látið renna í gegnum jöfnunarsjóð til þess að jafna á milli einstakra sveitarfélaga.

Mér finnst það liggja í augum uppi, án þess að ég hafi kannað það nákvæmlega, að í þessum málaflokki, þ.e. varðandi málefni fatlaðra, þurfi talsvert miklu hærri prósenta að fara um jöfnunarsjóð því að aðstaða sveitarfélaganna er mjög misjöfn til þess að taka við málaflokknum. Einstaklingarnir eru misþungir og þjónustuþörfin mjög mismunandi í einstökum sveitarfélögum.

[17:30]

Ég tel líka mjög mikilvægt að það séu ekki nema stærstu sveitarfélögin sem eigi að taka málaflokkinn ein. Ég held að það sé miklu heppilegra að mynda byggðasamlög um þau. Það er verið að gera á Norðurlandi vestra og fyrir liggur samningur sem er fullbúinn um að byggðasamlag sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra taki við rekstri málaflokksins 1. apríl.

Fleiri sveitarfélög hafa óskað eftir því að semja um að taka við málefnum fatlaðra, það verður sem sagt búið að færa málaflokkin til sveitarfélaganna alfarið á Norðurlandi, Austfjörðum, Hornafirði og í Vestmannaeyjum, ýmist á grundvelli laganna um málefni fatlaðra ellegar þá á grundvelli reynslusveitarfélaganna. Þetta hefur alls staðar gengið vel hjá sveitarfélögunum þar sem þau hafa tekið við málaflokknum. Þjónustuþegarnir eru ánægðir, sveitarstjórnarmennirnir eru ánægðir og starfsfólkið er líka ánægt. Að vísu hafa komið upp smáhnökrar vegna launamála á Akureyri en ég vænti þess að það leysist og það er ekki neitt stórvandamál.

Spurt var um ástæðuna fyrir frestuninni. Eins og ég drap stuttlega á hafði Reykjavíkurborg forustu um að óska eftir að yfirfærslunni yrði frestað. Það var líka mjög skammur tími til stefnu vegna þess að sveitarstjórnarkosningar voru að bresta á og fyrri hluti ársins hjá sveitarstjórnarmönnum fór í undirbúning sveitarstjórnarkosninga. Síðan vildi Reykjavík náttúrlega sjá hvernig yrði unnið að því að stytta biðlistana og við erum sífellt að fá betri og gleggri mynd af því hver staðan er.

Ég hef ekki viljað að við færum að ákveða dagsetningu á yfirfærslunni eða heildaryfirfærslunni þá þegar af þeirri ástæðu að ég tel að það þurfi að ræða það nánar við sveitarstjórnarmenn. Sveitarstjórnarmenn eru nefnilega ekki einhuga um að taka við málaflokknum. Það eru raddir, sérstaklega í stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, sem eru ekki ákafar í fá þennan málaflokk til sín, a.m.k. ekki bili. Það voru sveitarstjórnarmenn sem báðu um að fá málaflokkinn færðan en það var ekki þrýstingur frá ríkinu til þess. Eins og ég sagði er ekki fullkomin eining meðal sveitarstjórnarmanna. Þó er það kannski hjá starfsfólki sveitarfélaganna sem ber meira á viðvörunum eða úrtölum, ef svo mætti segja, hjá einstöku aðila.

Ég hef sagt frá því að verið er að stofna eitt nýtt sambýli í Mosfellsbæ. Ég held ég sé búinn að svara þeim spurningum sem var beint til mín í gær.