Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:33:52 (2223)

1998-12-12 17:33:52# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir skýr svör við spurningum mínum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra. Við höfum fengið mjög greinargott yfirlit yfir stöðuna og ástæður þess að hæstv. ráðherra leggur fram þetta frv. sem auðveldar okkur náttúrlega að taka afstöðu til málsins.

Margt mjög athyglisvert kom fram í máli hæstv. ráðherra, m.a. um kostnaðinn við að uppfylla þá þörf sem er til staðar fyrir þjónustuúrræði við fatlaða. Sú tala kemur vissulega ekki á óvart en hér er um háa tölu að ræða eins og ráðherrann nefndi. Málaflokkurinn tekur til sín í rekstur um 3 milljarða en ef við uppfylltum þörfina væru það um 4 milljarðar. Hæstv. ráðherra nefndi að vísu ekki stofnkostnað en ég gæti trúað að hann væri mjög mikill og kæmi mér ekki á óvart að hann væri einhvers staðar á bilinu 1--2 milljarðar til þess að leysa þörfina, ekki síst í búsetuúrræðum. En eins og ég nefndi í máli mínu í gær er mjög langur biðlisti eftir búsetuúrræðum eins og fram hefur komið. Um 90 einstaklingar í félagslega vernduðum íbúðum bíða eftir búsetuúrræðum og 170 einstaklingar í allt bíða eftir húsnæðisúrræðum fyrir utan biðlista eftir skammtímavistun o.s.frv. Ef hæstv. ráðherra hefur tölu um stofnkostnað væri ágætt að fá það inn í umræðuna.

Hæstv. ráðherra fór yfir þær lagasetningar eða frv. sem þarf að leggja fyrir þingið í kjölfar yfirtöku sveitarfélaganna á þessum málaflokki og mjög gott var að fá yfirlit yfir þá stöðu. Það er vel skiljanlegt að ekki sé lengra komið með frumvarp um tekjustofna sveitarfélaga vegna þess að menn eru að átta sig á þessari fjárhagslegu stöðu og hæstv. ráðherra nefndi áætlun um 5--7 ár til þess að leysa þörfina. Ég get alveg verið sammála hæstv. ráðherra um það að skynsamlegt er að reyna að setja fram einhverja áætlun til einhvers tíma, þó ég leggi ekki mat á þann árafjölda sem ráðherrann nefndi, svo að þeir sem vinna við þennan málaflokk viti hvers vænta megi og líka til þess að auðvelda að færa fjármagn yfir til sveitarfélaganna við þessa yfirfærslu og sjá hvernig það verður best gert.

Varðandi lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga lýsti hæstv. ráðherra því að það frv. væri mjög langt komið og yrði sennilega lagt fram eftir jólin. Mig langar þá að spyrja ráðherrann hvort bærileg samstaða sé um það frv., hvort hann treysti sér til að upplýsa það hér og nú. Þá er ég að tala um hagsmunasamtökin.

Eins vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því, af því það var samþykkt þáltill. á síðasta þingi þar sem móta átti heildstæða stefnu í málefnum langveikra barna, og ef ég man þá tillögu rétt var hún þess efnis að það átti að skoða það að fella málefni þeirra undir lögin um málefni fatlaðra eða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá var við það miðað, ef það yrði gert, að fulltrúar í samtökum langveikra barna eða Umhyggju fengju aðgang að þeirri vinnu og eins fulltrúar í Félagi krabbameinssjúkra barna. Þó að sú tillaga sé hjá hæstv. heilbrrh. þá veit ég að hæstv. félmrh. hlýtur að hafa komið þar að þannig að ég vil spyrja hvort hann geti upplýst okkur um stöðuna í því máli, sérstaklega af því að hæstv. ráðherrann upplýsir að vinnslan við frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga sé á lokastigi.

Ég vil fagna því sem hæstv. ráðherra upplýsti að reynslan sé góð hjá þeim sveitarfélögum sem hafa verið með þennan málaflokk á sinni könnu í formi svokallaðra reynslusveitarfélaga. Ég er alveg sannfærð um að sveitarfélögin öll leggja metnað sinn í að gera vel í þessum málaflokki. En til þess þarf auðvitað að búa þannig að þeim að þeim sé kleift að sinna þessum málaflokki vel. Ég hygg að það sé skynsamleg leið sem hæstv. ráðherra nefndi að í smærri sveitarfélögunum verði það byggðasamlög sem sjái um þetta verkefni.

Ég ítreka aftur þakklæti mitt til hæstv. ráðherra og ef hann gæti svarað þeim viðbótarspurningum sem ég beini til hans væri það gott núna við 1. umr. þessa máls.