Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:41:32 (2225)

1998-12-12 17:41:32# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Út af síðustu spurningunni vil ég segja að náttúrlega verða sveitarfélögin að ráða því nokkuð mikið sjálf á hverjum stað hvernig þau vilja haga þessu. Hlutverk okkar er að passa að fullnægjandi þjónusta sé veitt og að fjármunir séu til til þess að reka hana. En sveitarfélögin sjálf geta haft nokkuð frjálsar hendur um það hvernig þau skipuleggja félagsþjónustu sína.

Á Höfn í Hornafirði, sem er reynslusveitarfélag, er mjög athyglisverð tilraun í gangi sem ég tel að geti orðið okkur til mikillar fyrirmyndar. Þar eru sameinuð öldrunarmál. Sveitarfélagið hefur yfirtekið heilsugæsluna og málefni fatlaðra, þetta er sett undir eitt félagsmálabatterí sem virðist ganga vel. Menn verða því að hafa ákveðið frelsi til að skipuleggja hver hjá sér.

Ég tók það ekki fram áðan að í hinum ýmsu landshlutum eða á hverri svæðisstjórn eru undirbúningsnefndir starfandi. Þær hafa verið misvinnufúsar eða eru mislangt komnar í vinnu sinni.

Varðandi spurninguna um hvað kosti að byggja upp þau úrræði sem þarf að koma upp, þá er lagt eitthvert lauslegt mat á það í skýrslunni. Ég þori ekki að fara með tölur enda er hægt að leysa þetta með ýmsum hætti. Við höfum í síðustu lotu farið meira út á þá braut að taka húsnæði á leigu og þá þarf náttúrlega ekki eins mikið í stofnkostnaðinn. Ég nefni sem dæmi hús á meðferðarheimili sem er rekið á vegum Barnaverndarstofu og var verið að afhenda fullbúið á laugardaginn var í Háholti í Skagafirði. Þar byggir héraðsnefnd Skagfirðinga, nú er það sveitarstjórnin sem byggir húsið, gerir síðan langtímaleigusamning við Barnaverndarstofu um að taka það á leigu til fjölda ára. Þetta höfum við gert víðar, bæði að kaupa eldra húsnæði og að taka eldra húsnæði á leigu.

Þegar ég kom í félmrn. var 40% af Framkvæmdasjóði fatlaðra varið til rekstrar. Við breyttum þessari uppsetningu og þess vegna eru menn alltaf að tala um skerðinguna á framkvæmdasjóði. Rekstrarverkefnunum, þessum 40% var létt af sjóðnum.

Nú höfum við lagt mat á það hvað þau kosti í fjárlögunum og það eru um 170 milljónir sem þessi rekstrarverkefni kosta í dag sem áður voru greidd af Framkvæmdasjóði fatlaðra.

Nú hefur þróunin verið sú með erfðafjárskattinn að hann innheimtist æ betur, þ.e. sú summa sem erfðafjárskatturinn gefur hækkar ár frá ári vegna þess að vel stæðir einstaklingar eru að falla frá og það eru stórir arfar og sjóðurinn hækkar stöðugt. Ef við leggjum nú saman það sem fer í framkvæmdasjóðinn, það sem fer til þeirra rekstrarverkefna sem sjóðurinn áður hafði, vantar núna upp á 75 millj. til þess að allur erfðafjárskatturinn komi til góða að þessu leyti. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að þegar við förum í þetta átak verðum við að fá meira fjármagn, meira af erfðafjárskattinum í framkvæmdasjóð.

Ég var spurður um samstöðuna um frv. Ég þori ekki að fullyrða um það, þetta er stór nefnd, ég veit ekki um ágreining í henni. Hann hefur a.m.k. ekki komið fram. Þegar frv. kemur fram þá gefst mönnum náttúrlega tækigfæri til þess að skoða það og láta þá koma í ljós athugasemdir.