Málefni fatlaðra

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 17:51:13 (2228)

1998-12-12 17:51:13# 123. lþ. 39.2 fundur 331. mál: #A málefni fatlaðra# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 156/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst svör hæstv. ráðherra um langveik börn ekki nægjanlega skýr. Eins og ég nefndi áðan þá er málið á könnu hæstv. heilbrrh. þannig að það má vera skýringin. En ég óttast, miðað við viðbrögð hæstv. ráðherra, þar sem hann er ekki alveg öruggur á því hvort tekið sé á málefnum þeirra í frv. um félagsþjónsutu sveitarfélaga, að lítið hafi verið gert með þessa þáltill. Nú hefði verið mjög æskilegt að hæstv. heilbrrh. hefði verið viðstaddur þessa umræðu.

Ég held að það væri mjög æskilegt ef hæstv. ráðherra mundi skoða það mál sem ég hef nefnt varðandi langveik börn í tengslum við framlagningu á frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Vafalítið verður gengið mjög eftir stefnumótun í málefnum langsjúkra barna. Ef ég man rétt þá átti hún að liggja fyrir nú um þessi áramót, þ.e. hvernig tekið yrði á þeirra málum. Ef hæstv. félmrh. er ekki kunnugt um hvort lagt verði til að fella þetta inn í löggjöfina um málefni fatlaðra og óviss hvort þetta sé í frv. sem er á lokastigi á hans vegum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þá óttast ég að lítið hafi verið gert í þessum málum. Tillagan kvað á um að þetta ætti að liggja fyrir nú um áramótin. Ég teldi því mjög gott og æskilegt ef hæstv. ráðherra athugaði hvar á vegi þetta mál er statt. Þetta snertir jú nokkuð hans málaflokk.