Húsnæðissamvinnufélög

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 18:10:57 (2234)

1998-12-12 18:10:57# 123. lþ. 39.4 fundur 333. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# frv. 161/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við erum að fjalla um húsnæðissamvinnufélög, sem margir hafa kallað búseturétt, en það felst í því að fólk á ekki íbúðina sína sjálft heldur á það rétt til að búa í íbúðinni. Hér er um sambærilegt fyrirbæri að ræða eins og við sjáum hjá lífeyrissjóðunum og mjög víða þar sem er að myndast fé sem enginn á, þ.e. fé án hirðis, en menn eiga rétt til nýtingar á þessu fé.

Ég hef löngum sagt og hef þá lífssýn að betra sé að einstaklingar eigi eignir sínar en ekki eitthvert Félag með stórum staf eða einhver óljós aðili. Þess vegna er ég í grundvallaratriðum á móti húsnæðissamvinnufélögum sem slíkum. Fyrir utan það að ég tel að það hafi sýnt sig að vera mjög dýrt kerfi.

Hins vegar fellst ég á það að menn geti sjálfir valið sér það form hvernig þeir vilja búa. Þeir sem vilja búa í búsetuíbúðum mega gjarnan gera það mín vegna ef þeir ekki nota það sem bakdyr til að komast yfir ódýrt fé, t.d. niðurgreidda vexti þannig að fólk sem hefur jafnvel háar tekjur njóti sérstakra vaxtakjara umfram annað fólk með sambærilegar tekjur. En þetta hefur því miður verið baráttumál margra að njóta félagslegra vaxta þó að þeir hafi háar tekjur, bara af því að þeir búa í einhverju sem þeir kalla félagslegar íbúðir, þ.e. í húsnæðissamvinnufélagi.

Herra forseti. Eftir 40 ár, þegar búið er að greiða íbúðina upp og fólkið á búseturétt, hver á þá íbúðina? Það er mín spurning. Maðurinn sem hefur búið í íbúðinni í 40 ár er í reynd búinn að borga hana, hann er búinn að borga alla íbúðina. Hann er búinn að borga allan kostnað sem af henni hlýst og spurning mín er: Hver á þá íbúðina annar en sá sem er búinn að búa í henni alla tíð?

Hér er verið að búa til eitthvert form þar sem menn eiga rétt á að búa í íbúðinni en eiga ekki eignina sjálfa. Ég spyr: Er það Félagið með stórum staf sem á íbúðina eftir 40 ár eða sá sem búinn er að borga hana? Ég vara við svona kerfi, herra forseti, og tel að þetta leiði til vandræða þegar fram í sækir.