Húsnæðissamvinnufélög

Laugardaginn 12. desember 1998, kl. 18:16:01 (2236)

1998-12-12 18:16:01# 123. lþ. 39.4 fundur 333. mál: #A húsnæðissamvinnufélög# frv. 161/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 123. lþ.

[18:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að þetta frv. fjallar ekki sérstaklega um lánskjör búsetamanna. En náttúrlega er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvernig þeim lánakjörum verði hagað í nýju kerfi.

Skil ég það rétt, herra forseti, að hæstv. ráðherra hafi sagt að þeir fengju lánafyrirgreiðslu í gegnum 16. gr. sem húsnæðisbréf? Fá þeir að fullu lánað í gegnum þann lánaflokk eða verða það húsbréf að hluta? Ef það verður öll lánveitingin, upp að hvaða marki er hún þá? Er hún upp að 70 eða 90%? Hvað verður lánshlutfallið hátt í gegnum þennan ákveðna lánaflokk? Kemur það að öllu leyti varðandi búseturéttaríbúðir í gegnum þennan sérstaka lánaflokk í 16. gr., eða er gert ráð fyrir því að búsetumenn geti líka fengið húsbréf að hluta?

Mér finnst mjög nauðsynlegt að fá alveg skýra mynd af því hvaða lánskjör húsnæðissamvinnufélögum og þar með Búseta verða búin.