Útflutningur hrossa

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 13:16:45 (2242)

1998-12-14 13:16:45# 123. lþ. 40.1 fundur 346. mál: #A útflutningur hrossa# (útflutningsgjald) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[13:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá að mæla fyrir þessu litla frv. Það tekur örstutta stund. Frv. er flutt á þskj. 450 og er 346. mál þingsins. Frumvarpið er flutt m.a. að tillögu útflutnings- og markaðsnefndar. Um er að ræða að 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. verði breytt með hliðsjón af þeim breytingum á lögum sem orðið hafa annars vegar með búnaðarlögum, nr. 70/1998, og hins vegar með lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum. Með búnaðarlögum, nr. 70/1998, voru felld úr gildi lög nr. 84/1989, um búfjárrækt, og því æskilegt að breyta tilvísun 5. gr. laga nr. 161/1994 til þeirra laga. Nánar tiltekið er lagt til að tilvísun í 15. gr. laga um búfjárrækt, nr. 84/1989, verði breytt og í staðinn komi tilvísun í 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998.

Með lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum, er kveðið á um að innheimta skuli sérstakt búnaðargjald af búvöruframleiðendum og skal ráðstafa ákveðnu hlutfalli af því gjaldi til Búnaðarsjóðs. Þykir af þessum sökum eðlilegt að fella niður þann hluta 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um útflutning hrossa en þar er einnig kveðið á um greiðslu í Búnaðarmálasjóð sem nú heitir Búnaðarsjóður.

Samkvæmt lögunum eins og þau eru nú greiða framleiðendur hrossa því 15% útflutningsgjald í þann sjóð. Með tilkomu laga um búnaðargjald er eðlilegt að fella niður ákvæðið um greiðslur til Búnaðarsjóðs í þeim lögum sem hér er verið að leggja til breytingar á.

Hæstv. forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til athugasemda með frv. Hvað varðar meðferð málsins vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess að lögfesta frv. fyrir þinghlé og að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn.