Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:21:22 (2258)

1998-12-14 14:21:22# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. 263,7 millj. er sú upphæð sem bæta þyrfti við útgjöld hins opinbera til þess að tryggja öldruðum og öryrkjum ókeypis almenna tannlæknaþjónustu auk þess sem unnt yrði að hækka aldursviðmiðunarmörk unglinga úr 15 árum í 17 ár. Samkvæmt könnun landlæknis er það helst á sviði tannlækninga sem tekjulítið fólk hefur ekki tök á að leita sér lækninga og hefur komið fram að unglingar úr tekjulitlum fjölskyldum fá ekki sömu aðhlynningu og félagar þeirra sem eru af efnaðra fólki komnir.

Þá munu vera talsverð brögð að því að aldrað fólk og örykjar þurfa að láta sér tannleysi lynda og margt fólk getur ekki leitað sér brýnustu lækninga. Þetta er náttúrlega ótækt og ber að leiðrétta þegar í stað auk þess sem benda má á að Samtök aldraðra hafa bent á að einmitt á þessu sviði sé einhver ranglátustu jaðaráhrifin í almannatryggingakerfinu.