Fjárlög 1999

Mánudaginn 14. desember 1998, kl. 14:54:54 (2268)

1998-12-14 14:54:54# 123. lþ. 40.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv. 165/1998, landbrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að gera hv. þingheimi grein fyrir því að heimild til sölu á Stofnfiski, nánast eða líklega alveg samhljóða þeirri sem hér er verið að greiða atkvæði um, er í fjárlögum ársins í ár þannig að sú heimild liggur fyrir. Alþingi hefur heimilað söluna með afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár sem nú er að renna í aldanna skaut.

Ég vil hins vegar taka það fram út af því sem kom fram um atkvæðagreiðsluna hjá hv. seinasta ræðumanni, Lúðvíki Bergvinssyni, og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni hér áðan að vegna þess að mér er kunnugt um það að Alþingi hefur beðið Ríkisendurskoðun um skýrslu um málið, sem ég vona að verði afhent þinginu þessa dagana, þá hef ég beðið um að það verði hinkrað með sölumeðferð þessa sömu daga. Ég vona að það mál verði á hreinu áður en 3. umr. um fjárlögin fer fram.