Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:39:43 (2277)

1998-12-15 13:39:43# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:39]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er sannarlega um mjög óvanalega málsmeðferð að ræða af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hárrétt það sem hv. síðasti ræðumaður sagði um baksvið þeirra breytinga sem gerðar voru á þingsköpum á sínum tíma þegar aflögð var deildaskipting í þinginu. Af umfjöllun um málið í 2. umr. og ítrekuðum yfirlýsingum talsmanna meiri hluta hv. þingnefndar skildist mér að hugmyndin væri sú að fram færi efnisleg skoðun málsins og ýmissa þátta málsins í hv. þingnefnd á milli umræðna. Ég held að það væri fróðlegt að líta yfir þær yfirlýsingar sem komu fram um þetta leyti í síðustu viku í þinginu í umræðum um málið. En síðan er það næsta sem við fréttum af meðferð málsins innan nefndarinnar að það er tekið fyrir til málamynda, að þar er útbýtt brtt. af hálfu hv. meiri hluta þingnefndarinnar og málið tekið úr nefnd en hafnað í leiðinni að ræða við aðila sem höfðu óskað eftir því að fá að tala við nefndina.

Virðulegur forseti. Síðan berast okkur fregnir af því að stofnun eins og Rannsóknarráð Íslands sem hafði lýst jákvæðum viðhorfum til málsins að einhverju leyti á fyrri stigum hefur nú lýst andstöðu við það vegna breytinga sem gerðar hafa verið milli umræðna þannig að það er að bætast í hóp þeirra fjölmörgu í vísindasamfélaginu sem tengjast rannsóknastarfsemi í landinu sem harðneita að taka við þessu máli eins og það er fyrir lagt.

Virðulegur forseti. Ég held að full rök séu til þess, eins og hér hefur komið fram ósk um, að fresta umræðu um málið þannig að færi gefist, þó ekki sé nema fyrir minni hluta ef meiri hlutinn ekki vill líta á þetta mál frekar heldur bara fá þetta stimplað á Alþingi, að hann fái möguleika til þess að skoða það frekar og ræða við aðila úti í samfélaginu um málið.