Framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 13:44:16 (2279)

1998-12-15 13:44:16# 123. lþ. 41.91 fundur 170#B framhald umræðu um gagnagrunnsfrumvarpið# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Vinnubrögðin í þessu máli hafa verið með eindæmum og ég tek undir mótmæli þess efnis að málið á ekki heima á dagskránni.

Ég hef verið einn þeirra sem hafa verið tiltölulega jákvæðir gagnvart málinu í heild. Ég hef verið opinn fyrir tillögum og sjónarmiðum annarra í þessu máli. En sú aðferð meiri hluta heilbr.- og trn. að hafna eðlilegri málsmeðferð með því að neita að ræða við aðila eru fáheyrð vinnubrögð.

Vel getur verið að menn geti deilt um hvort gerðar voru grundvallarbreytingar á frv. núna við 3. umr. eða ekki. En það að neita mönnum að koma til nefndarinnar og hlusta á sjónarmið þeirra, jafnvel þó menn ætli ekkert að gera við þeirra sjónarmið, eru fáheyrð vinnubrögð. Ég vil benda á annað. Hv. varaformaður heilbr.- og trn. ræðir hér um breytingar á aðgenginu. Þær voru nú ekki betur úr garði gerðar en svo að Rannsóknarráð Íslands sem var eini aðilinn sem studdi málið er búinn að segja sig frá málinu vegna þess að aðgengi vísindamanna er hindrað að þeirra mati. Það voru öll góðu vinnubrögðin. Þetta sýnir réttmæti þess sem við höfum haldið fram. Málið átti að fá eðlilega umfjöllun í nefndinni milli 2. og 3. umr. Þannig skildi ég umræðuna þegar við vorum í 2. umr. En allt er gert til að hrekja mig og aðra í algera andstöðu við þetta mál.