Framhald þingstarfa

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 14:45:11 (2300)

1998-12-15 14:45:11# 123. lþ. 41.94 fundur 173#B framhald þingstarfa# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Eins og forseti hefur lýst yfir vilja stjórnarflokkarnir þetta mál á dagskrá, að það verði rætt og því verði lokið í dag, hvort sem það verður í dag, kvöld eða nótt. Minni hlutinn hefur sýnt hörð viðbrögð í þessu máli og hér kom fram ósk um að málinu yrði frestað vegna vinnubragða, herra forseti, og önnur mál tekin á dagskrá eða nefndir settar til starfa. En það er afskaplega erfitt, herra forseti, að sjá sterk rök fyrir því að keyra málið í gegn á þann hátt sem hér er fyrirhugað. Og það er einstaklega slysalegt að framkoma meiri hlutans í heilbr.- og trn. skuli hafa verið með þeim hætti sem hér hefur verið lýst.

Meiri hluti heilbr.- og trn. löðrungar formann sinn á sama tíma og verið er að reyna að byggja upp þá hefð að formenn í nefndum geti jafnt komið frá minni hluta og meiri hluta, og þeim sé þá treyst til að stýra nefndum og vinnu í nefndum. Og meiri hlutinn skellir hurðum á fulltrúa vísindasamfélagsins sem óska að koma á fund nefndarinnar. Við höfum lýst því hversu hörð viðbrögð koma frá þessum fulltrúum sem halda því fram að það frv. sem hér á að afgreiða sé allt annað mál en það sem hefur verið til umfjöllunar og var til umfjöllunar þegar þeir sömu fulltrúar komu á fund nefndar.

Auðvitað má um þetta deila en þetta eru viðbrögðin. Og í stað þess, herra forseti, að reynt sé að ná samstöðu um vinnubrögð --- ég er ekki að tala um að ná samstöðu í pólitík, það er greinilega fyrir bí --- var líka slegið á útrétta hönd þingflokks jafnaðarmanna sem vildi gefa því tækifæri að náð yrði saman um málið í nefnd á milli 2. og 3. umr., það var slegið á þá útréttu hönd. Þess vegna er ekki lengur um að ræða að ná samstöðu um pólitík, við erum að tala um að ná samstöðu um vinnubrögð þegar komið er fram í síðustu viku fyrir jól og hér á að eyða öllum þessum tíma í mál sem engin rök eru fyrir að keyra í gegnum þingið á þann hátt sem hér á að gera.

Auðvitað ræður forseti og auðvitað ræður meiri hlutinn. En við höfum verið hér með ákall um samvinnu. Við þingflokksformenn höfum haldið fund með forseta en málaleitan okkar er hafnað. Við munum að sjálfsgöðu eiga fund með forseta síðar í dag, en ég ætla að lýsa því yfir að við vitum ekkert um þinghaldið annað en að gagnagrunnur er eina málið á dagskrá í dag. Við vitum ekki hvað á að vera á morgun og ekki hinn, og ekki er gerð tilraun til samvinnu við okkur frekar en gerð var tilraun til þess í heilbr.- og trn. Og mér finnst þetta sorglegt, herra forseti.