Framhald þingstarfa

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 14:54:59 (2306)

1998-12-15 14:54:59# 123. lþ. 41.94 fundur 173#B framhald þingstarfa# (um fundarstjórn), Forseti RA
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Forseti (Ragnar Arnalds):

Í framhaldi af því sem forseti sagði hér í upphafi var ætlunin á þessum fundi, sem boðaður var nú fyrir skemmstu, að tækifæri gæfist til að ræða um þinghaldið almennt. Og má segja að til þess var fundurinn boðaður að ræða um þinghaldið almennt og sérstaklega um dagskrána í dag.

Það gafst ekki neitt tóm til að ræða um þinghaldið almennt á þessum stutta fundi sem haldinn var áðan, en örugglega er fullur vilji til þess af hálfu allra aðila að fundur um þinghaldið og þingstörfin fram undan verði haldinn síðar í dag og verður sá fundur boðaður fljótlega. Á þessari stundu get ég ekki alveg sagt hvenær hann verður en ég vænti þess að þá gefist stjórn og stjórnarandstöðu tækifæri til að fjalla um þingstörfin fram undan.

Hvað varðar dagskrána í dag þá er, eins og hér hefur komið fram, enginn samkomulagsflötur á því máli. Stjórnarandstaðan hefur borið fram ákveðnar óskir en stjórnarmeirihlutinn hefur borið fram aðrar óskir og þá, eins og endranær, hlýtur auðvitað meiri hlutinn að ráða og því verður þetta mál tekið hér á dagskrá.