Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:10:47 (2310)

1998-12-15 15:10:47# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:10]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri hér og segja að rætt hefur verið við æðsta embættismann þingsins sem segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að vitna í þskj. sem liggur fyrir. En mig langar að svara hér andsvari ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill spyrjast fyrir um það, hver er sá æðsti embættismaður þingsins annar en forseti?)

(ÁRJ: Situr ekki forseti í forsetastóli?) Æðsti embættismaður þingsins, ég tel að það sé Helgi Bernódusson, virðulegur forseti.

(Forseti (GÁS): Það er algjör misskilningur hjá hv. þm., það er sá sem hér stendur.)

Ef hæstv. forseti misskildi orð mín þannig að viðkomandi réði yfir forseta þingsins þá var það nú ekki meiningin. Ég biðst afsökunar á því ef það misskildist þannig. Ég kom aðallega hingað upp til þess að svara andsvari. Það er alrangt sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir segir hér, að þetta hafi ekki verið skoðað á milli 2. og 3. umræðu. Við fengum til okkar Davíð Þór Björgvinsson frá Lagastofnun til þess að fara yfir þetta mál með okkur. Lagastofnun benti á að æskilegt væri að taka ákvæði um aðgengisnefndina úr frv. Því hafa hv. þm. frá þingflokki jafnaðarmanna haldið hér á lofti í umræðunum. Við sögðum einmitt þetta í umræðum um þetta mál síðast að við vildum kanna þá leið sem hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sjálf lögðu til, aðra þeirra leiða sem þau lögðu til. Þetta skoðuðum við. Við fengum á fund nefndarinnar fulltrúa frá Lagastofnun, Davíð Þór Björgvinsson, sem sagði okkur í heilbrn. að þessi breyting væri til bóta og væri þannig líklegri til að standast EES-samkomulagið.

Það er því alrangt þegar sagt er að við höfum ekki skoðað þetta í heilbrn.