Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:12:50 (2311)

1998-12-15 15:12:50# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, þetta var ein af leiðunum sem við bentum á. Hins vegar hefði virkilega þurft að fá t.d. fulltrúa Samkeppnisstofnunar til að skoða þetta.

Aftur á móti var grundvallarbreytingin á frv. auðvitað sú að rekstrarleyfishafa væri heimilt að samkeyra erfðafræðiupplýsingar og ættfræðiupplýsingar án þess að tölvunefnd komi að málinu í hvert sinn, eins og reglan er við slíkar samkeyrslur. Það er grundvallarbreytingin sem gerir það að verkum að hér erum við að fjalla um allt aðrar grundvallarforsendur í frv. en voru til umræðu í allri meðferð nefndarinnar í allt haust. Hér er allt annað mál til afgreiðslu en það sem við höfðum til umfjöllunar í nefndinni. Það er auðvitað ámælisvert.

Þar fyrir utan er þetta náttúrlega valdníðsla, eins og við höfum sagt, að fá ekki að kalla til þá aðila sem við töldum nauðsynlegt við breytingarnar á frv.