Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:16:53 (2314)

1998-12-15 15:16:53# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. Ágúst Einarsson er ósammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur vegna þess að þetta er leið sem þessir hv. þm. bentu á að ætti að fara og lögðu til. (ÁRJ: Skoða.) Skoða og fara. Lesið nál. ykkar, hv. þingmenn, síðan við síðustu umræðu. Hins vegar er þetta rangt hjá Rannsóknarráði. Það er rangt að segja að við séum með þessu að takmarka enn frekar aðgengi vísindamanna að grunninum. Það er alrangt. Breyting okkar er einmitt til þess fallin að tryggja enn betur aðgang okkar vísindamanna að grunninum, tryggja að hann standist EES-samninginn betur, þannig að þetta verður hluti af endurgreiðslu rekstrarleyfishafa fyrir að komast í upplýsingarnar, að fá að færa upplýsingar úr sjúkraskrám inn í miðlægan gagnagrunn þannig að þetta er misskilningur, því miður, hjá Rannsóknarráði. Ég vil reyndar benda á að öll heilbrn. vill tryggja aðgang vísindamanna okkar að grunninum og við erum núna búin að sameinast um leið í því sambandi sem mér heyrist reyndar að minni hlutinn sé að hlaupa frá.