Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:20:50 (2317)

1998-12-15 15:20:50# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Að mínum dómi er sú brtt. sem liggur fyrir varðandi 10. gr. algert grundvallaratriði í þessu máli. Mér fannst að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir segði að þegar þessir þrír gagnagrunnar væru keyrðir saman þyrfti leyfi tölvunefndar. Eftir því sem ég best fæ séð gildir það einungis þegar tryggja þarf persónuvernd því það getur verið til skoðunar að keyra þessa grunna saman til að ná út einhverjum öðrum upplýsingum eða niðurstöðum. Eins og ég skil þetta á að setja ákveðið verklag og vinnuferli til að tryggja persónuvernd en þegar á að samtengja gagnagrunninn á heilbrigðissviði við aðra gagnagrunna fer samkvæmt ákvæðum laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Grundvallarspurning mín er þessi: Þarf leyfi tölvunefndar í hvert sinn til að keyra saman þessa gagnagrunna? Ég sé ekkert í þessu sem tryggir það nema þegar er spurning um persónuvernd og hér í brtt. við 18. gr. er talað um aðgangstakmarkanir. Hvað felst í því?