Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 15:29:01 (2324)

1998-12-15 15:29:01# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að ekki sé um neina mismunun að ræða gagnvart vísindamönnum. Margoft hefur komið fram í umræðunni að við getum náð yfir vísindamenn okkar með þessum hætti þar sem þeir starfa langflestir hjá þeim stofnunum sem hafa verið taldar upp eða eru í samstarfi við þá um vísindarannsóknir.

Varðandi hvaða erfðafræðigrunna er um að ræða hefur líka komið fram að hugsanlegur starfsleyfishafi --- nú er ekki búið að úthluta þessu starfsleyfi (Gripið fram í: Nú?) en hugsanlegur starfsleyfishafi eða eins og stendur í áliti minni hlutans væntanlegur starfsleyfishafi, ég segi hér hugsanlegur starfsleyfishafi, hefur erfðafræðigrunn frá 7.000 Íslendingum og það hefur oft komið fram í umræðunni. Hafi væntanlegur starfsleyfishafi yfir að ráða erfðafræðigrunni og og ættfræðigrunni tel ég því eðlilegt að samkeyra upplýsingar úr þessum grunnum með þeim hætti að tölvunefnd setji skilyrðin þannig að persónuverndar sé gætt.