Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 16:27:37 (2337)

1998-12-15 16:27:37# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Frsm. 2. minni hluta heilbr.- og trn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei efast um það hver eigi að vera þessi starfsleyfishafi, hver sé vilji ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég tel hins vegar mjög alvarlegt mál ef talsmaður hæstv. ríkisstjórnar viðurkennir það svo berlega í máli sínu eins og hér hefur komið í ljós og það er það sem mér þykir vera alvarlegt mál í þessu, m.a. með tilliti til þeirrar röksemdar sem ég benti á áðan að það þarf að fara fram faglegt og málefnalegt mat áður en ákveðið er hver er væntanlegur starfsleyfishafi. Ég hef fyrir mína parta aldrei dregið í efa að það sé fyrir löngu búið að ákveða það, herra forseti.

Ríkisstjórnin ætlar að hafa vit fyrir þjóðinni í þessu máli. Ríkisstjórnin telur að þetta sé þjóðþrifamál. Það er hins vegar svo, herra forseti, að mjög fáir aðrir telja þetta vera þjóðþrifamál og allra síst vísindamenn eða læknar eða aðrir þeir sem eiga að starfa eftir þessum lögum. Það er kannski það sem er alvarlegt og það er það sem gerir það að verkum að mat mitt er að þessi grunnur mun aldrei verða eitt eða neitt, hann mun aldrei verða það vísindatæki sem hann á að verða vegna þess að það er enginn sem vill eða ætlar að starfa eftir honum nema ríkisstjórnin, herra forseti. Hún dugir því miður ekki til þó hún mundi öll setja sjálfa sig í grunninn og jafnvel einhverja fleiri á sínum snærum.