Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 17:04:40 (2344)

1998-12-15 17:04:40# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[17:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir heldur að það sé möguleiki fyrir mig að vera með einhverja sátt eftir þær aðferðir sem hún beitti í nefndinni á föstudaginn. Það er algjör misskilningur. Aftur á móti veit ég ekki betur en við höfum unnið þetta sáttfús bæði ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson í allri umræðunni.

Þó svo að fulltrúar frá framkvæmdarvaldinu hafi farið og kannað málið í Brussel á sínum tíma hefði verið full ástæða til að fulltrúar frá þinginu og nefndin léti skoða hvernig þetta mál stæði gagnvart EES-samningnum. Ef hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vill koma skoðunum mínum á EES-samningnum á sínum tíma inn í umræðuna þá er það alveg ljóst að ég var á því að það ætti að gera þennan samning þó það væri ekki nákvæmlega eins og EES-samningurinn var hugsaður.

Aftur á móti tel ég þetta vera mjög góðan samning og ég hef algjörlega skipt um skoðun á því. Ég held þetta hafi verið rétt leið og hún sé til bóta og við eigum að passa upp á að við brjótum ekki samninginn eins og við virðumst vera að gera með þessari lagasetningu.

Að það hafi verið prófkjör hjá Sjálfstfl. þegar var verið að fjalla um þetta mál kemur málinu bara ekkert við. Ég gagnrýni það ekki að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hafi tekið þátt í umræðunni. Mér finnst það bara virðingarvert. Aftur á móti verð ég að segja að ég furða mig á því að ekki skuli fleiri þingmenn hafa tekið þátt í umræðunni og það ekki þingmenn í hv. heilbr.- og trn. sem eru búnir að vera að vinna þetta mál frá því í vor. Þeir sáu ekki ástæðu til þess að ræða málið, með fullri virðingu fyrir Tómasi Inga Olrich, sem er ekki í nefndinni.

Um hugmyndir okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að auðvelda aðgang vísindamanna að nefndinni ætla ég ekki að ræða frekar. Það hefur komið fram í máli mínu og kom mjög skýrt fram í ræðu minni áðan.