Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 17:08:54 (2346)

1998-12-15 17:08:54# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[17:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er enginn að hlaupa eitt né neitt. Það hefur komið alveg skýrt fram að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson bentum á tvær leiðir sem mætti skoða. Eins og ég vitnaði beint í í nál. okkar við síðustu umræðu bendum við á að það þurfi að skoða þetta að því sem snýr að samkeppnismálum og segjum hér:

,,Hins vegar er álitamál hvort hún [þ.e. þessi leið] gengur nógu langt til að hægt sé að fullyrða að hún feli ekki í sér samkeppnishamlandi mismunun,`` eins og lýst er í 4. tölulið.

Við höfðum því efasemdir um það að þetta væru endilega réttar leiðir en töldum ástæðu til að skoða þær vegna þess að við vorum sáttfús og vildum reyna að leysa þetta vegna þess að nefndin var öll sammála um það að vísindamenn ættu að hafa greiðan aðgang að þessum gagnagrunni. Nefndin var sammála um það og við vorum að reyna að benda þarna á ákveðnar leiðir.

Ég held að ég nenni ekki að hafa frekari orðaskipti um þetta við hv. þm. Ég held þetta hafi komið mjög skýrt fram í ræðu minni og í þessu andsvari og ég mótmæli því að einhver sé að hlaupa frá einu eða neinu hér. Hér höfum við verið að reyna að vinna samviskusamlega við að bæta lagasetningu sem var í skötulíki þegar hún kom inn í þingið í upphafi og er verið í rauninni að kippa grunninum undan með þeim breytingum sem voru gerðar núna undir lok umræðunnar þegar málið var keyrt út úr nefndinni með valdi, eins og gert var á föstudaginn.