Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 18:52:01 (2350)

1998-12-15 18:52:01# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[18:52]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hvergi verið að þrengja að öðrum vísindamönnum með þessu frv. sem hér liggur fyrir. Það er grundvallaratriði. Því er það alveg deginum ljósara að ef vel gengur þá erum við að efla vísindi. Við erum að koma í veg fyrir sjúkdóma og við erum að þróa ný lyf. Það er ætlunin með því frv. sem hér liggur fyrir. Og það að við höfum verið að vísa einhverjum öðrum málum frá vegna þessa frv. þá hef ég nú verið hér á þingi í bráðum átta ár og ég man ekki til þess að 3. umr. fjárlaga hafi verið 15. desember. Hún hefur alltaf farið fram seinna. Við erum því engu að vísa frá. Við erum aðeins að ræða mál sem hefur verið til umræðu í þinginu í níu mánuði. Það er það sem við erum að gera.

Ég fékk ekkert móðgunarkast, hv. þm., þótt þú spyrðir mig jafndónalegra spurninga eins og hv. þm. gerði. (ÖJ: Hvernig væri að fá svar við spurningunni?) Ég svaraði henni áðan hv. þm. og svara því enn að minn flokkur hefur ekki þegið mútur og er ekki fjárhagslega bundinn þessu fyrirtæki. Ég spurði hv. þm. sömu spurningar, þ.e. hvort hann hafi þegið mútur, því eðlilegt er að hann sé spurður sömu spurninga og hann spyr sjálfur.