Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 18:53:25 (2351)

1998-12-15 18:53:25# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[18:53]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Ég svaraði á mjög afdráttarlausan hátt þeirri spurningu hæstv. ráðherra. Ber að skilja svar hæstv. ráðherra á þann veg að Framsfl. hafi aldrei fengið neina peninga frá þessu fyrirtæki? Það var spurningin og reyndar á ég eftir að fá þá yfirlýsingu líka frá Sjálfstfl.

Spurningin um vísindin og svigrúm vísindanna, það eru slík atriði sem vísindamenn og samtök vísindamanna hér og erlendis eru að vara okkur við. Þetta auðveldi ekki vísindarannsóknir, þetta takmarki þær. Þetta reisi íslenskum vísindamönnum þröskulda og geri þeim erfiðara um vik að stunda rannsóknir sínar. Út á það gengur gagnrýnin á þetta frv. sem snýst um að veita einu fyrirtæki einkarétt, réttinn til að selja aðgang að upplýsingunum, að selja öðrum vísindamönnum aðgang að þeim upplýsingum. Um það snýst málið. Þetta snýst um að takmarka aðgengi vísindamanna að upplýsingum en menn halda að við getum gert okkur svo góðan pening úr þeim, þjóðin geti gert sér svo góðan pening úr þessu sem ég held að sé nú ekki. Ég held að menn séu að kaupa norðurljósin. Ég held að þeir peningar muni aldrei skila sér til þjóðarinnar en út á það gengur þessi gagnrýni.