Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 18:55:20 (2352)

1998-12-15 18:55:20# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[18:55]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ræðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni bar þess merki að hann er á móti frv. og hefur verið andvígur þessu máli frá upphafi eins og kemur mjög greinilega fram í nál. minni hlutans. Varðandi það að við værum áfram að mismuna vísindamönnum með hinni nýju leið sem við erum að fara í sambandi við aðgengið, þá vísa ég því á bug. Við fórum sérstaklega yfir það mál í nefndinni og það er alveg ljóst að það er tekið miklu skýrar fram núna að aðgangur vísindamanna sem starfa við þær stofnanir sem samningar verða gerðir við, að litið verður á þennan aðgang sem hluta af endurgjaldi rekstrarleyfishafa fyrir aðgang að heilsufarsupplýsingunum. Þetta er því hluti af endurgjaldi. Þannig er aðgangurinn hugsaður. Og mér kemur á óvart hvað sumir vísindamenn telja að hættulegt sé að breyta þessu aðgengi, eins og 1. minni hluti lagði reyndar til, vegna þess að með þeim hætti hafa þeir aðilar, vísindamenn, heilbrigðisstofnanir og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn að mínu mati enn þá meira tak á væntanlegum starfsleyfishafa, hver sem það nú verður, og enn meira tak í samningum að semja um gott aðgengi heldur en var með aðgengisnefndinni sem við vorum með í frv. á fyrri stigum. Það kemur mér því á óvart að menn skuli bregðast illa við þessari leið. Ég tel að það sé til bóta fyrir vísindamennina að semja skuli um þetta. Nú geta þeir sest niður og samið um góðan aðgang.

Varðandi það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að við værum að fara að fremja skemmdarverk á heilbrigðiskerfinu og sverta ímynd Íslands á alþjóðavettvangi, þá vísa ég því algerlega á bug. Hérna erum við einmitt að bjóða upp á nýtt rannsóknartæki fyrir utan þau tæki sem fyrir eru, þ.e. dreifðir gagnagrunnar. Og það er alveg ljóst að heilbrigðisyfirvöld munu hafa mikinn hag af þessum grunni.