Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 18:59:10 (2354)

1998-12-15 18:59:10# 123. lþ. 41.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins vegna þessara orða að lesa upp úr áliti minni hlutans varðandi væntanlegan rekstrarleyfishafa, áliti 1. minni hluta. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Innan nefndarinnar var raunar einhugur um að reyna að haga frumvarpinu svo að vísindamönnum væri tryggður eins mikill aðgangur að grunninum og frekast væri unnt. Sama viðhorf virtist ríkja hjá væntanlegum rekstrarleyfishafa.``

[19:00]

Hjá nefndinni kom ítrekað fram að hugsanlegur rekstrarleyfishafi væri mjög jákvæður gagnvart því að fá íslenska vísindamenn til liðs við sig inni í grunninum, að hleypa þeim að grunninum ódýrarar en öðrum. Það verður gert með sérstakri aðferð eins og við höfum margoft farið yfir og það verður litið á það sem hluta af endurgjaldi rekstrarleyfishafans fyrir að komast inn í heilsufarsupplýsingarnar.

Varðandi aðra vísindamenn, sem starfa ekki hjá viðkomandi aðilum, verða þeir ef þeir ætla að komast með þessum hætti inn í grunninn að vera í samstarfi við fyrrgreinda vísindamenn til að komast ódýrarar inn í grunninn.

Ég vil benda aftur á að dreifðu gagnagrunnarnir verða að sjálfsögðu áfram til staðar og þeir verða reyndar enn betri en þeir eru í dag þannig að þetta er til bóta fyrir alla og sennilega mest til bóta fyrir íslenska sjúklinga og heilbrigðisyfirvöld sem geta notað þetta nýja tæki.

En ég átta mig á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson er andvígur málinu frá upphafi og ég efast um að ég geti sannfært hann í stuttu andsvari.