Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 20:58:03 (2358)

1998-12-15 20:58:03# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[20:58]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að menn hefðu ekki viljað neina sátt í málinu, menn hefðu herst eftir því sem á leið. Það er ekki rétt. Við höfum lagt okkur fram við að koma með ábendingar sem gætu stuðlað að sátt í þessu máli. Ég hef t.d. gert það, lagt fram opinberlega og í ræðustól átta tillögur beinlínis til breytinga þannig að það vantar ekki a.m.k. að mjög margir stjórnarandstæðingar hafa nálgast þetta mál með opnum huga.

Varðandi vísindasiðanefndina og Rannsóknarráð, þá vil ég vitna orðrétt í bréf þeirra, með leyfi forseta:

,,Með þessu telur ráðið að forsendur álits Rannsóknarráðs séu breyttar.``

Hér er enginn fyrirvari. Það er alveg ljóst hvað Rannsóknarráð segir í þessari umsögn. Þeir leggjast orðið gegn frv., þ.e. eini aðilinn sem áður studdi það.

Hv. þm. segir að þetta byggist á misskilnilningi. Ég kaupi reyndar ekki þá fullyrðingu. Ég held að Rannsóknarráð sé alveg fullfært um að koma áliti sínu fram. En ég spyr á móti: Hefði þá ekki verið full ástæða til að hlusta á Rannsóknarráð og leiða þeim fyrir sjónir hvað þeir misskildu? Hefði ekki verið ástæða að hlusta á þessa aðila? Ég vil spyrja hv. þm.: Vill hann beita sér fyrir því að heilbr.- og trn. taki þetta mál aftur og kalli þá til Rannsóknarráð þannig að úr því megi fá skorið hvort um misskilning sé að ræða? Ég bendi á að lagðar hafa verið fram fjölmargar hugmyndir einmitt um aðgengisnefndina. Nokkrar voru tilgreindar í áliti minni hluta heilbr.- og trn. og allar voru þær lagðar fram sem innlegg í samvinnu og samræður milli 2. og 3. umr., samræður sem ekki var gefinn kostur á.

Mín meginspurning er þessi: Úr því að hv. þm. telur að Rannsóknarráð hafi misskilið þetta allt saman, vill hann þá ekki stuðla að því að Rannsóknarráð fái að koma fyrir heilbr.- og trn. og skýra mál sitt?