Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:00:11 (2359)

1998-12-15 21:00:11# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:00]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að því er varðar sáttaviljann, þá vil ég benda hv. síðasta ræðumanni á að nú er það fundið málinu og meiri hlutanum til foráttu að tekið var mark á ábendingu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og ákveðið ákvæði um aðgengisnefnd tekið út. Nú er það fundið okkur til foráttu að við urðum við þessari bón. (ÁRJ: Hvaða útúrsnúningar eru þetta?) Þetta eru engir útúrsnúningar heldur hefur málflutningurinn bókstaflega gengið út á það í allan dag að finna okkur þetta til foráttu. Það er merkilegt að það skuli hafa farið fram hjá hv. þm.

Að því er varðar vísindasiðanefndina sem ég nefndi alveg sérstaklega, þá vakti það mikla athygli mína að þegar það var tekið inn harðnaði afstaðan gegn þessu. Er þetta sáttavilji, hv. þm.?

Að lokum vil ég nefna í sambandi við Rannsóknarráð Íslands að með því að lesa þetta bréf þá kemur skýrt og skorinort í ljós að þeir skilyrða andstöðu sína við frv. því að ekki reynist unnt að tryggja íslenskum vísindamönnum aðgang að miðlægum gagnagrunni, en það er einmitt það sem við ætlum að tryggja með því að taka þetta ákvæði út. Og sá sem hér stendur verður að fá að vera ósammála þeirri fullyrðingu í bréfi Rannís að aðgengi vísindamanna að grunninum hafi verið takmarkað enn frekar með þessari breytingu. Sá sem hér stendur er bara ekki sammála þessu. Málið er nú komið á lokastig og við því verður ekki hróflað meira með neinum nefndafundum, enda er það óþarfi. Öll sjónarmið í þessu máli hafa komið fram.