Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:02:05 (2360)

1998-12-15 21:02:05# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:02]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. virðist ekki vera læs því að í bréfi Rannís stendur, með leyfi forseta:

,,Með þessu telur ráðið að forsendur álits Rannsóknarráðs séu brostnar.`` Og svo segir: ,,Meiri hluti heilbrn. Alþingis brást við þessum athugasemdum með því að takmarka enn frekar aðgengi vísindamanna að grunninum.``

Hvað er óljóst í þessu? Ekki nokkur skapaður hlutur. Hvað varðar minnihlutaálit heilbr.- og trn. vil ég einnig benda hv. þm. á að þar segir líka að sé vísindanefndin tekin út á þennan hátt, þá sé álitamál hvort það sé ekki samt á skjön við alþjóðleg lög. Þessu er varpað fram ásamt fleiri hugmyndum. Mönnum var aldrei gefinn kostur á því að vinna saman að þessu máli og það er rangt sem þingmaðurinn segir að afstaðan hafi harðnað þegar vísindasiðanefndin kom inn. Það var mjög gott að vísindasiðanefndin kom inn því að þetta var meginatriðið í gagnrýni okkar á þetta mál.

Tvennt hefur staðið út af varðandi þetta núna á síðari stigum auk nokkurra minni mála. Það er einkaleyfið sem menn hafa ekkert viljað hlusta á, því miður, og það er aðgengi vísindamanna. Brtt. meiri hlutans um að fella þetta inn í 6. gr. er ekki fullnægjandi með þessu orðalagi. Ég kann líka að lesa út úr aðgengi vísindamanna. Það er nú einu sinni líka mitt fag.