Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:41:30 (2373)

1998-12-15 21:41:30# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:41]

Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni að hv. þm. hefði flutt ítarlegast mál allra úr meiri hlutanum fyrir þessum breytingum. Ég kem með þrjár tæknilegar spurningar vegna þess að hún er eina manneskjan sem hefur flutt þetta yfir á hið tæknilega plan, þrjár spurningar. Hún svarar engri. En hvað segir hún? Að ég sé með útúrsnúninga.

Herra forseti. Hún segir þá væntanlega að útúrsnúningar mínir felist í því hvernig ég túlka mál tölvunefndar á fundunum. Ég á eftir að gera það miklu rækilegar í ræðu minni síðar í kvöld.

Hverra kosta á ég völ, herra forseti? Þessi hv. þm. hafði frumkvæði að því, eða var a.m.k. í forustu fyrir meiri hlutanum, þegar hann meinaði minni hlutanum þeirrar óskar að fá skriflegt álit frá tölvunefnd. Við höfum ekki fengið það álit vegna þess að nefndin gat ekki staðið að því saman. Hefði ekki verið betra, herra forseti, að við hefðum haft skriflegt álit eins og minni hlutinn vildi þannig að við vissum þá raunverulega hvað tölvunefnd sagði og hvaða álit hún hafði um þetta mál? Lýðræðið var þannig fótum troðið að það fékkst ekki. Hv. þm. brosir dapurlegu brosi. Það mundi ég líka gera í hennar sporum vegna þess að hún átti þátt í því að ekki bara afvegaleiða minni hlutann heldur líka þingið og þjóðina með því að koma hérna inn með breytingar sem eru allt annars eðlis en þær sem voru sendar út til umsagnar. Það kalla ég auðvitað blekkingar.

Hv. þm. sagði að það væri skrýtið í frhnál. minni hlutans að talað er um að möguleikar á lágmarkssamstöðu hafi verið eyðilagðir. Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram. Ég sjálfur var ekki í grundvallaratriðum á móti miðlægum gagnagrunni. Ég hafði sjálfur ekki í hyggju að greiða atkvæði gegn miðlægum gagnagrunni. En ég get ekki annað eftir framkomu hv. þingmanns og fleiri sem nístir hold mitt eins og eftir glóandi tein, því það er þannig sem ég upplifi framkomu meiri hlutans eftir að við höfðum af faglegri ábyrgð reynt að rannsaka þetta mál. Og síðan í lokin fengum við þetta drag í óæðri endann, sem ég kalla svo, frá hv. þm. og fleirum þegar okkur var meinað að rannsaka mál sem hv. þm. skilur ekki betur en svo að hún treystir sér ekki til þess að koma hingað og svara þremur tæknilegum spurningum sem varða hennar eigið mál.