Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 21:43:55 (2374)

1998-12-15 21:43:55# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[21:43]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg með ólíkindinum hvernig málflutningur hv. formanns hv. heilbr.- og trn. er í þessu máli. Ég get alveg skilið að hann sé svekktur yfir því að nú virðast allir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið af stuðningi sínum við þetta mál vegna þess að það voru ýmsir, fleiri en hann, jákvæðir í þessu máli. Því er haldið fram nú hér í dag að málið sé gjörbreytt og að þess vegna séu menn hættir stuðningi við málið. Þetta er bara alrangt og hv. þm. veit það alveg jafn vel og ég.

Virðulegi forseti. Í raun og veru finnst mér mjög sérstakt að hv. þm. skuli leyfa sér að tala svona hér og tala um að verið sé að fótum troða lýðræði og störf í þinginu. Það var ekkert verið að meina minni hlutanum að fá gesti á fund nefndarinnar. (Gripið fram í.) Þeir báðu um (ÖJ: Það var hvort tveggja.) að tölvunefnd kæmi á fund nefndarinnar og við því var orðið. Það var heldur ekkert verið að meina minni hlutanum að óska eftir umsögn eða áliti tölvunefndar. Þeir komu þeim skilaboðum sjálfir á framfæri.