Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 15. desember 1998, kl. 23:55:29 (2394)

1998-12-15 23:55:29# 123. lþ. 42.2 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 123. lþ.

[23:55]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hvað er eiginlega hér á ferðinni? Hverjir stjórna þessu þingi? Hvað er hér um að vera? Hvaða máttarvöld eru það sem taka um það ákvörðun að engu máli skipti fyrir þing eða þjóð hvenær og hvernig fjárlög eru afgreidd? Fjárlög íslenska ríkisins, 140 milljarðar á næsta ári, fullkomið smáatriði. Hvaða máttarvöld eru það í þessari stofnun sem taka um það ákvörðun að ekki megi ræða um sjávarútvegsmál, kvótadóm Hæstaréttar? Gagnagrunnur, miðlægur gagnagrunnur með heilbrigðisupplýsingum sé aðalmálið.

Hvaða nauður rekur Alþingi til að halda áfram næturfundum nótt eftir nótt, sólarhring eftir sólarhring til að knýja fram mál sem ekkert liggur á að ljúka? Það eru engin rök fyrir því að ljúka verði þessu máli.

Greinilegt er að hér er eitthvað á ferðinni sem dálítið erfitt er að átta sig á en væri fróðlegt að stjórnarliðarnir reyndu að gera grein fyrir, ekki síst þegar það gerist að í kvöld var vissulega staðfest að ekkert samkomulag yrði um þinghaldið næstu sólarhringa. Gefið var í skyn við okkur formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar að látið yrði staðar numið um miðnættið, en þá gerðist það að allt í einu kom í þinghúsið ósýnileg hönd og sagði: Hingað og ekki lengra. Einhver yfirforseti birtist einhvers staðar meðfram veggjum og í skúmaskotum þinghússins (Gripið fram í: Var hann svarthærður?) og sló á puttana á forustu þingsins --- eða hvað? (Gripið fram í: Hann er farinn að grána.) Hverju getum við sem höldum uppi verkum fyrir stjórnarandstöðuna treyst þegar svona er að hlutum staðið?

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ef það er svo að hæstv. forsrh. landsins stjórni þinginu, þá mótmæli ég því. Ég skora á forsetana að láta hann vita það að hann ræður ekki, heldur eru það forsetar þingsins. Ég skora á menn að sýna það einu sinni á þessu kjörtímabili að forsetarnir ráði þinginu, hinir kjörnu forsetar sem voru kosnir með atkvæðum okkar allra sl. haust. Ég skora á þá að sýna það að forsrh. landsins er ekki kjörinn til að stjórna Alþingi Íslendinga, það liggur ekki þannig. Við skulum ekki láta niðurlægja þingræðið nótt eftir nótt, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð á þann hátt sem mér sýnist nú vera að gerast. Við skulum ekki láta það gerast, herra forseti.

Það er lágmarkskrafa að forsetarnir hlusti á þá ósk stjórnarandstöðunnar núna að gert verði hlé á þessum fundi til að menn tali saman, til að kanna a.m.k. hver það er sem ræður.