Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 12:28:15 (2409)

1998-12-16 12:28:15# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[12:28]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að heyra að gera á samninginn við sérleyfishafa áður en leyfið verður veitt. Það er mjög mikilvægt. En það kemur mér mjög á óvart að ekki sé búið að leggjast yfir það hvað eigi að vera í samningnum núna þegar við erum að afgreiða þetta mál því það er grundvallaratriði í umfjöllun málsins.

Herra forseti. Ég var að vísa til álitsgerðar Mannréttindaskrifstofu Íslands sem er mjög fagleg, enda standa að henni virtir aðilar. Þar eru bornar brigður á að upplýsingar í gagnagrunninum verði jafn vel tryggðar og haldið er fram af stjórnarmeirihlutanum. Ég ætla bara að vísa til þess álits.