Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 16:07:19 (2422)

1998-12-16 16:07:19# 123. lþ. 43.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður reyndi með þó nokkrum fyrirgangi að sannfæra þingheim um að endurnýting á upplýsingum sem safnað er í öðrum tilgangi en vísindatilgangi ætti í raun og veru að falla undir sams konar meðferð og rannsóknir á fólki í vísindalegum tilgangi. Þessi skilningur hans er alveg nýr af nálinni og samrýmist alls ekki þeim sáttmálum um þessi mál sem gerðir hafa verið. Hann er í hróplegu ósamræmi við líflæknissáttmálann sem er til þess að gera nýr af nálinni þannig að þessi merkilegi skilningur sem hv. þm. leggur í þetta mál kemur ekki heim og saman við skilning nokkurs annars manns á þessu. Ef erfðafræðilegar upplýsingar eru í þessum grunni, og það liggur ljóst fyrir að nokkrar erfðafræðilegar upplýsingar eru í sjúkraskrám, ef það breytir málinu þannig að líta eigi á meðferð þessara upplýsinga sem rannsóknir á fólki, þá er það alveg nýr skilningur og það getur vel verið að hv. þm. geti haldið því fram hér að hann skilji þetta réttum skilningi en allir aðrir skilji það röngum skilningi. En það er nú svolítið sérkennileg sjálfumgleði að halda því fram. Ég verð því að minna þingmanninn á örlitla hófsemi í sjálfsánægjunni.