Framkvæmdasjóður Íslands

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 18:06:36 (2435)

1998-12-16 18:06:36# 123. lþ. 43.5 fundur 123. mál: #A Framkvæmdasjóður Íslands# (afnám laga) frv. 146/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[18:06]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við meðferð þessa máls í hv. efh.- og viðskn. óskaði ég eftir því að fá upplýsingar um hvaða skuldbindingar það væru sem ríkissjóður er í raun og veru að yfirtaka vegna Framkvæmdasjóðs Íslands. Við 2. umr. málsins átti ég ekki kost á því að gera grein fyrir þessum upplýsingum þannig að ég áskildi mér þá rétt til þess að koma því á framfæri við 3. umr. sem ég ætla nú að gera. Ég vil taka fram að ég styð málið, þ.e. að ríkissjóður yfirtaki skuldbindingar vegna Framkvæmdasjóðs Íslands, vegna þess að ég held að ekkert annað sé að gera.

Framkvæmdasjóður Íslands á sér býsna athyglisverða sögu. Inn í þá sögu blandast fleiri stofnanir. Auk Framkvæmdasjóðs Íslands er það Framkvæmdabankinn og Framkvæmdastofnun. Og þegar við spurðum um hvaða skuldbindingar þessi sjóður hefði vegna lífeyris sérstaklega, þá fengum við þær upplýsingar frá Ríkisendurskoðun sem ég ætla nú að greina frá.

Í fyrsta lagi kom fram að heildarskuldbindingar Framkvæmdasjóðs vegna lífeyrisskuldbindinga nema 265 millj. kr. Þessar lífeyrisskuldbindingar skiptast þannig að vegna Framkvæmdasjóðs Íslands eru 148 millj. kr. og vegna Framkvæmdastofnunar samtals 117 millj. kr. Það eru eins og ég sagði samtals 265 millj. sem ríkissjóður er að yfirtaka vegna skuldbindinga Framkvæmdasjóðs Íslands við sína starfsmenn.

Í öðru lagi spurðum við um fjölda þeirra einstaklinga sem eiga rétt vegna lífeyrisskuldbindinga þessara stofnana. Í ljós kom að samtals 137 einstaklingar koma hér við sögu og þeir hafa unnið sér lífeyrisrétt sem skiptist þannig að vegna Framkvæmdasjóðs Íslands eru þetta 33 einstaklingar og vegna Framkvæmdastofnunar 104 einstaklingar. Hér eiga því samtals 137 einstaklingar sem eiga lífeyrisrétt uppreiknaðan upp á 265 millj. kr.

Síðan spurðum við að því hvort þessir einstaklingar ættu lífeyrisrétt hjá öðrum opinberum aðilum og Ríkisendurskoðun svaraði því þannig, með leyfi forseta:

,,Ekki eru til staðar tæmandi upplýsingar sem svara þessari spurningu. Hins vegar er ljóst að nokkur fjöldi einstaklinga af þessum hópi á lífeyrisrétt hjá fleiri en einum aðila innan opinbera geirans. Hér koma einkum til þeir einstaklingar sem starfað hafa sem:

a. ríkisstarfsmenn

b. bankastarfsmenn

c. alþingismenn

d. ráðherrar.``

Í fjórða lagi spurðum við hvort til staðar væri eftirlit og takmarkanir á því að einn og sami einstaklingur geti áunnið sér óheyrilega háan lífeyrisrétt, þ.e. með því að safna saman lífeyrisrétti úr mjög mörgum sjóðum, jafnvel á vegum opinberra aðila. Svarið var þetta, með leyfi forseta:

,,Þær takmarkanir sem Ríkisendurskoðun er kunnugt um eru að eftir gildistöku laga nr. 36/1986`` --- sem ég hygg að hafi verið lögin um viðskiptabanka eins og þau voru sett þá --- ,,voru settar reglur af hálfu bankastofnana ríkisins að til þeirra einstaklinga sem stofnanir greiddu beint lífeyri til yrði hann samanlagður ekki hærri en 90% af launum`` --- þ.e. í þessu tilviki bankastjóranna. --- ,,Takmarkanir þessar náðu ekki til einstaklinga sem voru í starfi fyrir gildistöku laganna eða þeirra sem byrjað höfðu töku lífeyris.`` --- Þ.e. þegar lögin voru sett og reglurnar voru samþykktar.

Í fimmta lagi spurðum við um það hvort Ríkisendurskoðun hefði yfirlit yfir starfskjör eða lífeyrisrétt einstakra aðila og Ríkisendurskoðun sagði að sjálfsögðu að hún veitti engar slíkar upplýsingar þar sem þær væru trúnaðarmál.

Í sjötta lagi var spurt: Eru lífeyrisréttindi samkvæmt almennum kjarasamningum eða sérsamningum við viðkomandi einstakling? Og svarið var þetta:

,,Þeir einstaklingar sem tóku lífeyri samkvæmt sérsamningi, þ.e. þeirra sem starfskjör voru sömu og bankastjóra ríkisbankanna eru lífeyrisréttindi í árslok um 445 þús. kr. á mánuði (12 mán.) og geta þeir hæst áunnið sér 90% af þeirri fjárhæð í lífeyri með þeim takmörkunum sem koma fram í tölulið 4. Hinn 1. janúar 1998 hækkaði viðmiðunarfjárhæð til útreiknings á lífeyrisskuldbindingum í 540 þús. kr. á mánuði.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og samkvæmt þessum upplýsingum er það augljóst mál að þeir sem hafa ýtrasta rétt samkvæmt þessum ákvæðum eru með lífeyri á mánuði upp á 490 þús. kr. Það er einnig ljóst að ef þeir hafa áunnið sér rétt áður en lögin nr. 36/1986 voru sett, geta þeir verið með uppsafnaðan rétt á mörgum stöðum þannig að hér getur verið um að ræða upphæð sem er miklu hærri en þetta, miklu hærri en 490 þús. kr. á mánuði, getur þess vegna verið á bilinu 600 til 800 þús. kr. á mánuði.

Þetta er auðvitað algerlega óhóflegt eins og allir viðurkenna. Ég nefni þetta hérna vegna þess að að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um lífeyrismál hjá bönkunum og það er greinilegt að bankarnir hafa haft vissan vilja til að taka á þeim málum þótt bankarnir séu gagnrýndir í þeim efnum. En ég held þó að það versta sé það þegar við stöndum frammi fyrir tíðindum af þessu tagi, að ríkið er að taka inn á sig og á skattgreiðendur gífurlegar fjárhæðir vegna algerlega óhóflegra lífeyrisskuldbindinga vegna tiltölulega mjög fárra einstaklinga. Þetta er satt að segja meira og minna fráleitt eins og þessir hlutir eru. Ég vil vekja á því athygli og hvetja til þess, ekki síst þar sem hæstv. fjmrh. er hér ekki langt undan, að þessi mál verði skoðuð í samhengi, þ.e. lífeyrisréttur ofurtekjumanna, þannig að þeir safni þessu ekki saman í fleiri, fleiri stofnunum eins og bersýnilega getur gerst án þess að ég muni rekja það neitt nánar úr þessum ræðustól.

Endurtek það hins vegar, herra forseti, að ég styð frv. vegna þess að það er bara dómur nánast. Ríkissjóður verður að yfirtaka þetta vegna skuldbindinga sem þegar hafa verið samþykktar og ákveðnar.