Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Miðvikudaginn 16. desember 1998, kl. 18:16:36 (2437)

1998-12-16 18:16:36# 123. lþ. 43.9 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv. 155/1998, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 123. lþ.

[18:16]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. við frv. til laga um söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Þessi tillaga er flutt af hv. þm. Ágústi Einarssyni ásamt mér. Þarna er á ferðinni tæknileg breyting. Í 3. mgr. 10. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris frá því sem segir í 1. mgr. í samræmi við tryggingafræðilegt mat fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað.``

Í 1. mgr. 10. gr. er þannig komist að orði, með leyfi forseta:

,,Hver sjóðfélagi sem orðinn er fullra 67 ára að aldri á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.``

Til þess að 3. mgr. hafi einhverja merkingu er rétt að hafa hana eins og segir í brtt., með leyfi forseta:

,,Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris frá því sem annars yrði skv. 1. mgr. í samræmi við tryggingafræðilegt mat fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað.``

Flóknara er þetta ekki, hæstv. forseti og ég hygg að þingheimur muni geta stutt þessa brtt.