Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:47:15 (2442)

1998-12-17 10:47:15# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að hreyfa þessu máli hér og vil jafnframt undrast viðbrögð hæstv. ráðherra við eðlilegum fyrirspurnum hennar úr þessum ræðustóli þar sem einfaldlega var spurt um vilja ráðherrans og pólitíska stefnu í þessum efnum. Það var því fullkomlega ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að koma fram eins og hann gerði áðan, undinn og öfugsnúinn og með allt á hornum sér. Um það var ekki spurt. Hér var beðið um efnisleg svör við gildum spurningum.

Hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hafa farið mikinn á þessu kjörtímabili einmitt varðandi aukið frelsi og aukna samkeppni í orkumálum. Hvað er þá eðlilegra en að um það sé spurt hver pólitísk afstaða ráðherrans sé til erindis Hitaveitu Suðurnesja um heimild til þess að virkja, til þess að fara í orkuvinnslu á mjög hagkvæmum og eðlilegum kosti? Það eru auðvitað engin svör við þessum pólitísku álitamálum að rekja hér þunglamalegt stjórnkerfi ráðuneytis hans. Það eru engin svör.

Ég vek líka athygli á og minni á það sem fram kom í ágætu inngangserindi hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur: Hver er samkeppnisstaða þessa fyrirtækis, Hitaveitu Suðurnesja, í samanburði við veitustofnanir Reykjavíkurborgar þegar þessir aðilar báðir tveir þurfa að leita til Landsvirkjunar þar sem Reykjavíkurborg er helmingseigandi? Hér sagði hæstv. ráðherra að ekki hafi verið leitað samrekstrarleyfis hjá Landsvirkjun og því bendi ég á ólíka aðkomu þessara tveggja stóru fyrirtækja.

Nei, virðulegi forseti. Hér er bara um einfalda pólitíska spurningu að ræða sem við þurfum einfalt, pólitískt, efnislegt svar við en ekki útúrsnúninga og illindi. Hver er stefna ráðherrans í málinu? Hvað vill hann? Leggst hann gegn því og hans flokksmenn að Hitaveita Suðurnesja fái að nýta þennan sjálfsagða og eðlilega orkukost eða er hann því meðmæltur? Punktur og basta.