Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 10:49:35 (2443)

1998-12-17 10:49:35# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[10:49]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að hreyfa þessu máli. Jafnframt hlýt ég að gagnrýna hrokafull viðbrögð hæstv. iðnrh. sem aðallega byggðust á lítilsvirðandi fullyrðingum í garð hv. málshefjanda og kvörtunum yfir því að forráðamenn Hitaveitu Suðurnesja kynnu ekki að sækja um leyfi.

Seinagangurinn í þessu máli er óviðunandi því hér er í rauninni fyrst og fremst um að ræða endurnýjun á tæknilega úreltum kosti. Málið er kannski ekki flóknara en það að annaðhvort sjá menn kosti þess að nýta og virkja á skynsamlegan hátt þann mikla kraft sem ólgar og kraumar undir niðri á þessu svæði eða menn sjá þá ekki, eða þá hitt að menn sjá en vilja ekki. Og auðvitað er það sjálft ríkið í ríkinu, Landsvirkjun, sem þvælist fyrir í þessu máli. Hér eru það augljóslega meintir hagsmunir Landsvirkjunar sem eru í fyrirrúmi.

Virkjun sú sem Hitaveita Suðurnesja verður að ráðast í er bráðnauðsynleg framkvæmd og sérlega hagkvæm eins og þegar er komið fram. Ég er hins vegar ósátt við að ekki skyldi ákveðið að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum. Ég held að það hefði verið nauðsynlegt í þessu efni. Og ég skora á hæstv. ráðherra að afgreiða þessa beiðni Hitaveitu Suðurnesja hið allra fyrsta á jákvæðan hátt.

Herra forseti. Mín skoðun er sú að það eigi að nýta og virkja háhitann í Svartsengi og að virkjanir af því tagi eigi að hafa forgang umfram þær virkjanir sem eru á forgangslista Landsvirkjunar sem eru margfalt skaðlegri landi og náttúru.