Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:07:38 (2451)

1998-12-17 11:07:38# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þátt þingmanna í þessari umræðu, hún var þörf. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að leysa þarf jöfnunarþáttinn varðandi raforkumálin og að frjálsræðið eitt leysir engan vanda.

Ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti hafa sett fram stefnu um frjálsræði og samkeppni en orð og athafnir fara ekki saman í þessu máli fremur en öðrum. Afskaplega var svar hæstv. ráðherra, herra forseti, ræfilslegt. Það segir allt um af hverju málið er komið inn á Alþingi. Hér er á ferðinni stefnuleysi og það að málinu hefur verið vísað frá Heródesi til Pílatusar.

Áburður á mig um að ég þekki ekki málsatvik og hafi ekki kynnt mér gögn er úr lausu lofti gripið. Ég er hér með fullkomið yfirlit yfir öll samskipti Hitaveitu Suðurnesja við ráðuneytið, við alla aðila og það er hægt að lesa þar hvernig málið hefur þvælst á milli staða. Það sem blasir við eftir þessa umræðu, herra forseti, er það að ráðherranum hefur hentað að vísa málinu á Orkustofnun eða yfir á aðra aðila. Þannig hefur það gengið fyrir sig að málið hefur þvælst í þrjú ár.

Herra forseti. Á sama tíma og Landsvirkjun skerðir orku til Ísals og Íslenska járnblendifélagsins hefur Hitaveita Suðurnesja ekki fengið afgreiðslu á sínum málum. Það mundi borga sig fyrir hana að virkja þó ekki væri nema vegna þeirra 80 gígavattstunda sem keyptar eru af Landsvirkjun. En ég tek undir að þessi mál þarf að skoða í heild en ekki láta þau dankast með þeim hætti sem gert hefur verið. Vegna þess að framleiðsluverð er ódýrt frá þessari virkjun og vegna þess að öll virkjunaráform á hálendinu eru í uppnámi og þjóðin vill að þau verði skoðuð.

Herra forseti. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó að svör ráðherrans séu þau að reyna að ata þá sem hér stendur auri fyrir vond vinnubrögð og kynna sér ekki gögn. Það er ekki málefnalegt og hittir ráðherrann sjálfan fyrir.