Heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:10:06 (2452)

1998-12-17 11:10:06# 123. lþ. 44.91 fundur 174#B heimild Hitaveitu Suðurnesja til virkjunarframkvæmda# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Fyrri ræða hv. 5. þm. Reykn., Rannveigar Guðmundsdóttur, gekk fyrst og fremst út á það að gera athugasemdir og vera með ásakanir um óeðlilega stjórnsýslu ráðuneytisins. Ég var að svara því. (RG: Hún er það.) Það er hins vegar mjög óeðlilegt, þegar ég átta mig á því og hv. þm. veifar öllum þeim bréfaskriftum sem orðið hafa milli ráðuneytisins og Hitaveitu Suðurnesja, að hv. þm. skuli ekki hafa kynnt sér þau gögn. Ég fór yfir það áðan hvernig þau samskipti væru og þau eru í eðlilegum og löglegum farvegi og er ekki hægt að gera neinar athugasemdir við það.

En af því að hv. þm. og fleiri þingmenn hafa spurt um hver stefnan væri, þá er það svo að hér hefur verið lögð fram af hálfu ríkisstjórnarinnar þáltill. um að innleiða í áföngum samkeppni í orkugeira. Sú tillaga fékk efnislega umfjöllun á Alþingi, var reyndar ekki afgreidd en var efnislega til umfjöllunar bæði í þinginu og í hv. iðnn. þingsins. Og ég met það svo að við þá þáltill. sé talsvert mikill stuðningur.

Hins vegar munum við eftir áramót leggja fyrir nýtt frv. til laga um raforkulög sem gera ráð fyrir því að innleiða samkeppni í áföngum í raforkugeirann á Íslandi. En á meðan gildandi lög eru eins og lögin um Landsvirkjun og orkulögin, þá er ekki hægt að ætlast til þess af ráðherra að hann gefi út virkjunarleyfi til fyrirtækis skorti hann til þess lagaheimildir. Eða er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að óska eftir slíku?

Varðandi orkuskortinn er það svo að þegar Sultartangavirkjun verður tilbúin verða 200 gígavattstundir umfram í kerfinu og til þess að við getum nýtt þær 200 gígavattstundir eða tekið inn nýja virkjunarkosti, þá þurfum við að hafa samninga um stóriðju eða annan orkufrekan iðnað. Kannski verður virkjunarleyfið fyrir Hitaveitu Suðurnesjað að byggjast á því að menn hafi orkufrekan kaupanda. Nú hefur þessi sami hv. þm. og hreyfir þessari umræðu í þinginu, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, gengið fremst í flokki þingmanna sem vilja undirrita Kyoto-bókunina strax. (Gripið fram í.) Sem þýðir með öðrum orðum að þá verður ekki um frekari orkufreka iðnaðarbyggingu (Gripið fram í.) á Íslandi að ræða. Sem þýðir líka það að menn þurfa þá ekki á þessum virkjunum að halda. (Gripið fram í.) Það er tvískinningur af hv. þm. að ganga fram með þeim hætti sem hún hefur gert hér.