Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:17:13 (2453)

1998-12-17 11:17:13# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, RG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Nú er að koma til atkvæða tillaga formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar um að vísa gagnagrunnsfrv. frá með rökstuddri dagskrá. Ástæður þess eru að frv. er ekki hæft til afgreiðslu á hinu háa Alþingi og þess vegna hafa fulltrúar jafnaðarmanna í heilbr.- og trn. jafnframt dregið brtt. sínar til baka.

Málið er mjög umdeilt og fjölmennir hópar innan vísindasamfélagsins og heilbrigðisþjónustunnar hafa lagst gegn því af mikilli alvöru og með sterkum rökum. Frv. var breytt í veigamiklum atriðum á milli 2. og 3. umr. og var ekki gefinn kostur á eðlilegri þinglegri meðferð. Slíkt er nær einsdæmi.

Herra forseti. Lögfesting frv. mun kalla á málaferli hérlendis og erlendis og leiða til átaka og tjóns í heilbrigðiskerfinu. Það er fullkomið ábyrgðarleysi að afgreiða svo mikilvæga löggjöf í algeru ósætti í samfélaginu og virða að vettugi allar viðvaranir um alvarlegar afleiðingar fyrirhugaðrar lagasetningar.