Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:21:06 (2457)

1998-12-17 11:21:06# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þingflokkur óháðra leggur til að þessu umdeilda máli verði vísað frá og koma röksemdir okkar fram í frávísunartillögunni. Þingflokkur óháðra stóð að frávísunartillögu í lok 2. umr. um málið enda er sjálf grunnhugmyndin, að gefa fyrirtæki einkarétt á heilsufarsupplýsingum íslensku þjóðarinnar til að versla með, algerlega óásættanleg. En á það ber að leggja áherslu að jafnframt höfum við, þingflokkur óháðra, lagt fram tillögu um aðra og farsælli lausn á málinu, lausn sem að dómi vísindamanna, að dómi lækna, að dómi samtaka sjúklinga, sérfræðinga í upplýsingatækni, mannréttindasamtaka, sem að dómi allra þessara aðila er til þess fallin að gæta persónuverndar, auðvelda rannsóknir og stuðla að framförum á sviði lækninga, lausn sem er án þröskulda fyrir vísindamenn en virðir jafnframt sjálfsögð mannréttindi. Það gerir frv. ríkisstjórnarinnar ekki. Þess vegna ber að hafna því og velja þann valkost, þá lausn sem sátt er um í þjóðfélagi okkar og á meðal erlendra þjóða.

Hér vísa ég til þáltill. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og annarra þingmanna óháðra um dreifða gagnagrunna. Þingflokkur óháðra stendur einhuga að baki þeirri afstöðu stjórnarandstöðunnar að vísa frv. ríkisstjórnarinnar frá.