Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:45:27 (2473)

1998-12-17 11:45:27# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, KH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:45]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þrátt fyrir mikla umræðu er enn mörgu ósvarað um grundvallaratriði þessa máls. En nægilega mikið liggur þó fyrir að ég tel mig geta tekið upplýsta og óþvingaða afstöðu svo notuð séu margtuggin orð úr umræðu undanfarinna vikna og mánaða. Niðurstaða mín byggist á grundvallaratriðum málsins.

Ég er andvíg því að pakka heilsufarsupplýsingum og ættfræði- og erfðafræðiupplýsingum gervallra landsmanna inn í einn miðlægan gagnagrunn. Og ég er algerlega andvíg því að fela slíkan fjársjóð í vörslu einkafyrirtækis með einkaleyfi til 12 ára. Rökin gegn samþykkt þessa frv. eru að öðru leyti svo mörg að þau verða ekki tíunduð í stuttri atkvæðaskýringu en þau varða bæði lögfræðileg, félagsleg og siðfræðileg álitaefni og þau lúta einnig að því að markmiðum frv. má ná með öðrum hætti. Það atriði hefur ekki fengið neina umfjöllun á hv. Alþingi. Það er svo hins vegar ljóst að áformaður gagnagrunnur verður bæði bjagaður og gagnslaus ef reynt er að koma honum á í bullandi andstöðu við stóran hluta íslensks vísindasamfélags auk þess sem líkur benda til að talsverður fjöldi landsmanna hafni því að upplýsingar verði færðar inn í þennan grunn. Ég segi nei við samþykkt þessa frv.