Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 11:51:14 (2478)

1998-12-17 11:51:14# 123. lþ. 44.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv. 139/1998, SP (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[11:51]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég segja það að í umræðum og gögnum málsins hefur komið skýrt fram að frv. var ekki gerbreytt milli 2. og 3. umr. þannig að þeir hv. þm. sem hafa áður verið jákvæðir í þessu máli geta ekki haft það sem afsökun fyrir breyttri afstöðu sinni.

Ég hef áður sagt í umræðum um þetta frv. að miðlægur gagnagrunnur getur orðið öflugt tæki til vísindarannsókna og geti skilað mikilli læknisfræðilegri þekkingu. Sú þekking mun nýtast til skilnings á eðli og umfangi sjúkdóma, gefa vísbendingar um nýjar leiðir til lækninga og varna og getur orðið öflugt tæki til að meta árangur og kostnað í heilbrigðiskerfinu. Það er trú mín að þetta mál eigi eftir að verða afar mikilvægt fyrir íslenskt þjóðfélag. Því segi ég já.