Tryggingagjald

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:22:00 (2490)

1998-12-17 12:22:00# 123. lþ. 44.16 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er svo langt komið sem raun ber vitni og komin er fram brtt. frá efh.- og viðskn. til þess að einfalda framkvæmdina á málinu. Þetta er það sem einstaka þingmenn höfðu sett fyrir sig að því er varðar ama og fyrirhöfn, sérstaklega hjá hinum minni launagreiðendum.

Hv. þm. Pétur Blöndal er óþreytandi við að gera lítið úr þessu máli. Það verður að hafa sinn gang en málið hefur verið undirbúið alllengi í fjmrn. Það hefur þegar verið kynnt öllum ríkisstarfsmönnum að þessir möguleikar séu fyrir hendi. Það hefur líka verið gert með auglýsingu í dagblöðum og verður frekara kynningarstarf unnið á næstunni og viðtökurnar til þessa hafa verið mjög góðar. Sem betur fer eru mjög margir áhugasamir um þetta mál og það sýnir að fullur áhugi er hjá almenningi að kynna sér möguleika sem þessa og taka þátt í að efla sparnaðinn í landinu með því að leggja viðbótarlífeyrissparnað sinn inn á séreignarreikninga.

Þess vegna er þetta hið besta mál og það er gott að það er komið á lokaafgreiðslustig, herra forseti.