Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:23:52 (2491)

1998-12-17 12:23:52# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:23]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 498 um frv. til laga um breyting á lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967.

Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum og fékk til viðræðna við sig fulltrúa frá dómsmrn., Landhelgisgæslu Íslands, Samtökum iðnaðarins og Ríkiskaupum. Einnig fékk nefndin til fundar við sig Björn Friðfinnsson, sérstakan ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í EES-málum. Nefndinni bárust einnig nokkrar umsagnir um málið.

Með frv. er lagt til að bætt verði ákvæði við lög um Landhelgisgæslu Íslands um samningsgerð við smíði varðskipa og viðhald þeirra þannig að við smíði varðskips sé ekki skylt að láta fara fram útboð og að heimilt verði að leita tilboða frá einum eða fleiri aðilum. Þá er lagt til að sama gildi um viðhald varðskips þegar sérstakir öryggishagsmunir krefjast. En nauðsynlegt þykir að reglur þar að lútandi verði lögfestar áður en hafin verður fyrirhuguð smíði á nýju varðskipi.

Við meðferð málsins í allshn. var nokkuð rætt um hvort ákvæðið bryti í bága við reglur um alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hefur Ísland gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar varðandi opinber innkaup. Skuldbindingar samningsins eru þó ekki fortakslausar og hindra ekki aðila samningsins í að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum sínum, sbr. a-lið 123. gr. samningsins. Ísland er bundið af tilskipun ráðsins nr. 93/36/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup, en þar segir í b-lið 1. mgr. 2. gr. að tilskipunin gildi ekki um vörukaupasamninga sem lýstir eru leynilegir eða ef beita verður sérstökum öryggisráðstöfunum við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög eða stjórnsýslufyrirmæli í viðkomandi aðildarríkjum eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.

Frv. sem nefndin hefur haft til umfjöllunar er byggt á þeim undantekningarreglum sem ég hef nú rakið en með þessu móti verður unnt að búa svo um hnútana að öryggishagsmunir verði tryggðir en nauðsynlegt er vegna hlutverks Landhelgisgæslu Íslands að fullur trúnaður ríki um gerð og eiginleika varðskipa.

Helstu hlutverk Landhelgisgæslunnar eru að hafa með höndum almenna löggæslu á hafinu umhverfis landið, jafnt innan sem utan landhelgi. Einnig ber Landhelgisgæslunni að tilkynna, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum eða almenningi getur stafað hætta af. Þá ber Landhelgisgæslunni að aðstoða við framkvæmd almannavarna eftir því sem ákveðið verður hverju sinni. Á grundvelli þessa telur nefndin að frv. fari ekki í bága við skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi.

Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Undir nál. skrifa Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Kristján Pálsson, Ólafur Örn Haraldsson og Tómas Ingi Olrich en Ögmundur Jónasson skrifar undir álitið með fyrirvara.