Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:34:02 (2494)

1998-12-17 12:34:02# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki er ég sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um síðastnefnda atriðið, að fara að hleypa NATO inn í herskip okkar. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér. Ég vil ítreka þá skoðun mína að ég er mjög fylgjandi því að varðskipið verði smíðað hér á landi. Ég tel það mikilvægt fyrir íslenskan skipaiðnað og það er ástæðan fyrir því að ég skrifa nafn mitt undir álit meiri hluta allshn. Ég er mjög fylgjandi þessu.

Varðandi rökin sem ég setti fram eða öllu heldur rökleysuna nánast því ég gerði þetta sannast sagna til gamans að tala um öryggisráðstafanir sem hugsanlega þyrfti að grípa til til að verja hin viðkvæmu hernaðarleyndarmál, þá ég setti þetta fram einna helst í gríni, en þannig er engu að síður röksemdin sem við færum fram til að komast á bak við EES-reglurnar. Ég er bara að vekja athygli á því að þeir sem harðast hafa barist með EES-samningnum og hafa dásamað hann í hvívetna, að þegar hann ekki passar, þá reyna menn að leita leiða til að komast á bak við hann.

En ég ítreka að ég er fylgjandi því að varðskip verði smíðað hér á landi.