Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:37:34 (2496)

1998-12-17 12:37:34# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að ýmislegt gott hefur áunnist í evrópsku samstarfi og það er rétt að íslenska verkalýðshreyfingin á aðild að Evrópusambandi verkalýðsfélaga. Það á við um ASÍ og BSRB og á þeim vettvangi hefur náðst árangur á ýmsum sviðum sem snertir kjör og réttindi launafólks.

Mín skoðun er hins vegar sú að þegar á heildina er litið feli EES-samningurinn í sér skuldbindandi ákvæði um víðtæka markaðsvæðingu samfélagsins og þrengingu á lýðræðislegu valdi. Við erum núna að kenna á því í því máli sem hér er til umræðu. Það er staðreynd að fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar sem sinna EES-málum --- og nefni ég þar Björn Friðfinnsson sérstaklega, sem kom á fund nefndarinnar og sagði að það væru mikil áhöld um hvort þetta stæðist EES-samninginn. Aðrir eru á gagnstæðri skoðun og ég hef tekið þá afstöðu að þar sem ég er fylgjandi málinu sé látið á þetta reyna.

Ég hef verið þeirrar skoðunar varðandi EES að heppilegra sé að þróa samskiptin við Evrópuþjóðir og hin evrópska markað í átt til tvíhliða samkomulags en það versta sem gæti hent okkur er að við yrðum algerlega innlimuð með húð og hári í Evrópusambandið.